Dómstóll í Marokkó hefur frestað réttarhöldum um tvær vikur yfir hópi fólks sem er grunaður um aðild að morði á tveimur ungum norrænum konum í Marokkó í fyrra.
Ákveðið var að fresta réttarhöldunum til 16. maí, aðeins nokkrum mínútum eftir að málið var tekið fyrir í dag en verjendur höfðu óskað eftir meiri tíma til að rannsaka málið.
Þeir 24 sem eru ákærðir mættu í dómsalinn en einn þeirra brosti í átt að blaðamönnum.
Louisa Vesterager Jespersen, 24 ára danskur nemi, og Maren Ueland, 28 ára gamall norskur nemi, voru teknar af lífi á tjaldstæði í Atlasfjöllunum í desember. Þrír menn eru sakaðir um að hafa framið morðin en þeir höfðu lýst yfir stuðningi við vígasamtökin Ríki íslams áður en þeir frömdu ódæðið.