Netflix mótfallið lögum um þungunarrof

Höfuðstöðvar Netflix í Los Gatos í Kaliforníu.
Höfuðstöðvar Netflix í Los Gatos í Kaliforníu. AFP

Streymisveitan vinsæla Netflix segir það koma til greina að láta af fjárfestingum sínum í Georgíu í Bandaríkjunum fari svo að umdeild lög um þungunarrof verði samþykkt í ríkinu, sem hefur verið kallað Hollywood suðursins.

„Margar konur á okkar vegum starfa í Georgíu. Þessi lög munu skerða á verulegan hátt réttindi þeirra og milljóna annarra,“ sagði Ted Sarandos, yfirmaður hjá Netflix, í yfirlýsingu sem hann sendi til Variety. „Þess vegna munum við starfa með [mannréttindasamtökunum] ACLU og fleirum til að berjast gegn þessu í réttarsal.“

Sarandos bætti við að Netflix muni halda áfram að kvikmynda í Georgíu en ef lögin taka gildi ætlar streymisveitan að endurskoða starfsemi sína í ríkinu.

Kvikmyndir á borð við Avengers: Infinity War, Black Panther og sjónvarpsseríurnar The Walking Dead, Stranger Things og Ozark eru allar teknar upp í Georgíu.

Á meðal leikara sem hafa hótað því að leika ekki í ríkinu eru Jason Bateman úr Ozark og Alec Baldwin.

AFP-fréttastofan hafði samband við þó nokkur stór, bandarísk kvikmyndaver en þau vildu ekki tjá sig um sína afstöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert