Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sló á létta strengi, að því er virðist, á blaðamannafundi í Osaka í morgun þegar hann sagði við Vladimír Pútín Rússlandsforseta að skipta sér ekki af forsetakosningunum í Bandaríkjunum á næsta ári.
Forsetatíð Trump hefur alla tíð einkennst af mögulegum afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016 en Robert Mueller, sérstakur saksóknari í Bandaríkjunum, segir í rannsóknarskýrslu sinni sem opinberuð var í apríl að hann hafi ekki getað ályktað að Trump sé saklaus af ásökunum um að hafa hindrað framgang réttvísinnar.
Trump og Pútín áttu stuttan fund í morgun en þeir eru báðir viðstaddir fund G20-ríkjanna, stærstu iðnríkja heims, sem hófst í Osaka í Japan í morgun.
Á fundinum ber hæst viðskiptadeilur Bandaríkjanna við ýmis ríki sem og ólgu í samskiptum Bandaríkjanna og Írans. Umhverfis- og loftslagsmál verða einnig fyrirferðamikil á fundinum, sem lýkur á morgun.
Trump er ekki sá eini sem bað Pútín um að hætta afskiptum af erlendum stjórnmálum en Theresa May, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands, ræddi við Pútín í morgun og sagði að eðlilegum samskiptum verði ekki komið á milli ríkjanna nema Rússar hætti öllum sínum tilraunum til að hafa áhrif á stjórnmál í Bretlandi.