Óeirðalögreglumenn í Hong Kong hafa náð að koma mótmælendunum sem réðust inn í þinghúsið þar í dag, út að nýju. Flestir fóru þeir út án mótspyrnu, eftir að lögregla beitti táragasi og kylfum fyrir utan þinghúsið.
Klukkan er að orðin rúmlega tvö að nótt að staðartíma Hong Kong, en lögregla lét til skarar skríða gegn mótmælendum laust eftir að klukkan sló tólf á miðnætti.
Lögreglumenn umkringdu mótmælendur í kringum þinghúsið og notuðu bæði táragashylki og kylfur við að dreifa hópnum. Flestir mótmælendurnir sem staddir voru inni í þinghúsinu á þeim tímapunkti yfirgáfu þinghúsið að svo búnu án mótspyrnu.
Mótmæli hafa staðið yfir í Hong Kong síðustu vikur, eða síðan að frumvarp sem skyldi leyfa framsal afbrotamanna til Kína var lagt fram á þinginu.
Afgreiðslu þess hefur verið slegið á frest um óákveðinn tíma en nú er krafa mótmælenda einnig orðin sú að því verði endanlega sópað út af borðinu og sömuleiðis að héraðsstjórinn Carrie Lam segi af sér.