Mótmælendur fá stuðning úr vestri

Mótmælendur gengu bersersksgang í þinghúsi Hong Kong í gær.
Mótmælendur gengu bersersksgang í þinghúsi Hong Kong í gær. AFP

Mótmælendur í Hong Kong hafa fengið stuðningsyfirlýsingu frá Donald Trump Bandaríkjaforseta. „Þeir vilja lýðræði og ég held að flest fólk vilji lýðræði. Því miður þá eru ekki öll ríki sem styðja lýðræðið,“ sagði Trump við fjölmiðla í Hvíta húsinu í gær þegar hann var spurður um mótmælin í Hong Kong.

„Þetta snýst allt um lýðræði. Það er ekkert betra en það,“ bætti Trump við.

Bresk stjórnvöld lýsa einnig yfir stuðningi

Trump er ekki sá eini sem hefur lýst yfir stuðningi við mótmælendur í Hong Kong heldur bárust þeim stuðningsyfirlýsing frá Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, sem sagði að stuðningur Bretlands við sjálfsstjórn Hong Kong væri algjör. Hann varaði þó mótmælendur við því að beita ofbeldi til að ná fram kröfum sínum.

Chris Patten, síðasti breski ríkisstjóri Hong Kong, talaði á sömu nótum og Hunt og bætti því við að Bretland þyrfti að standa fastar í lappirnar gegn Kína og með sjálfræði Hong Kong.

Kínversk stjórnvöld vara við afskiptum

Kínverskum stjórnvöldum var ekki skemmt vegna ummæla Trump og mótmæltu ummælum hans harðlega. „Við hörmum ummælin og afskipti Bandaríkjanna af innanríkismálefnum Kína og Hong Kong,“ sagði talsmaður utanríkisráðuneytis Kína, Geng Shuang, við fjölmiðla í Kína. Hann varaði erlend stjórnvöld við því að skipta sér af málefnum asíska stórveldisins.

Treysta ekki loforðum Carrie Lam

Mótmæli hafa staðið yfir í Hong Kong síðan í byrjun júní meðal annars vegna frumvarps sem stjórnvöld í sjálfstjórnarhéraðinu hugðust leggja fram sem hefði heimilað framsal afbrotamanna til kínverskra yfirvalda.

Carrie Lam, ríkisstjóri Hong Kong, hefur lofað því að fresta framlagningu frumvarpsins um óákveðinn tíma en það loforð hefur ekki nægt til að friða mótmælendur sem heimta að frumvarpið verði afturkallað að fullu.

Einnig krefjast þeir að allir mótmælendur sem hafa verið handteknir verði látnir lausir og óháð rannsókn verði hafin á meintu harðræði lögreglunnar. Þá fara mótmælendur fram á að Carrie Lam ríkisstjóri segi af sér og að skilgreining stjórnvalda á mótmælum sem fóru fram 12. júní verði leiðrétt, en þau mótmæli voru skilgreind sem óeirðir (e. riot) en ekki mótmæli (e. protest).

Mótmælendur ollu miklu tjóni í gær. Kínversk stjórnvöld hafa kallað …
Mótmælendur ollu miklu tjóni í gær. Kínversk stjórnvöld hafa kallað eftir sakamálarannsókn. AFP

Mótmælendum tókst í gær að brjóta sér leið inn í þinghús sjálfsstjórnarhéraðsins og lögðu muni í rúst og spreyjuðu á veggi. Óeirðarlögreglumenn réðust á endanum inn í þinghúsið og þvinguðu mótmælendur út. Beittu þeir svo táragasi og kylfum gegn mótmælendum fyrir utan þinghúsið.

Carrie Lam, ríkisstjóri Hong Kong, fordæmdi það sem hún kallaði „öfgafulla notkun ofbeldis“ mótmælenda sem brutust inn í þinghúsið og gengu þar berserksgang. Kínversk stjórnvöld hafa farið fram á að þeir sem stóðu fyrir innbrotinu verði sóttir til saka. Um 50 manns slösuðust í mótmælunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert