Mikið hefur verið skrifað um mótmælin í Hong Kong sem hófust í byrjun júní. Á mánudag var greint frá því þegar mótmælendur brutu sér leið inn þinghús sjálfstjórnarhéraðsins LegCo og gengu þar berserksgang.
„Óeirðaseggirnir“ voru harðlega gagnrýndir af stjórnvöldum í kjölfarið en nú hefur birst myndefni sem sýnir ótrúlega magnaða tillitssemi mótmælenda, ef svo má að orði komast.
Það má deila um það hvort staðan sé svo alvarleg í Hong Kong að nauðsynlegt hafi verið að hverfa frá friðsamlegum mótmælum og brjóta sér leið inn í opinbera byggingu með því að brjóta glugga og hurðir, spreyja á veggi og leggja muni í rúst.
En það er aftur á móti óumdeilanlegt að að minnsta kosti einhverjir sem fóru þangað inn báru virðingu fyrir verðmætum annarra einstaklinga, mikilvægum menningarminjum og fornmunum.
Á myndum sem hafa birst úr þinghúsinu má sjá að gripið var til sérstakra ráðstafana til að vernda fornmuni, bækur og fleira. Fyrrum íbúi Hong Kong sem býr nú á Íslandi var svo góð að senda meðfylgjandi myndir sem birtust á vefsíðu fjölmiðilsins HKCNews og þýða textann fyrir mbl.is.
Tævanska sjónvarpsfréttastöðin TVBS gerði innslag um þessa skemmtilegu hlið mótmælanna sem má sjá hér. Því fylgir því miður ekki texti.