45 eru særðir, þar af einn lífshættulega eftir að hópur manna vopnaður bareflum réðst á mótmælendur á lestarstöð í Hong Kong í gærkvöldi. Atvikið hefur vakið mikla reiði í borginni ekki hvað síst þar sem lögregla þótti afar lengi að koma sér á staðinn.
AFP-fréttaveitan segir myndir sem birtar hafa verið á samfélagsmiðlum sýna menn vopnaða kylfum, prikum og járnstöngum berja fjölda mótmælenda og blaðamanna á Yuen Long-lestarstöðinni og inni í neðanjarðarlestum á stöðinni þannig að blóðpollar mynduðust á gólfinu. Einn er lífshættulega særður líkt og áður sagði og fimm til viðbótar eru alvarlega sárir.
Grunur leikur á að mennirnir, sem flestir klæddust hvítum stuttermabolum, tilheyri kínversku glæpagengi.
Mótmælt var í Hong Kong alla helgina, sjöundu helgina í röð, og skaut lögregla gúmmíkúlum á og beitti táragasi gegn hópi mótmælenda í borginni.
BBC segir þetta í fyrsta skipti sem komið hafi til ofbeldis á þessum skala í mótmælunum, sem hófust vegna umdeilds lagafrumvarps sem heimila á framsal á meintra glæpamanna til Kína.
Fjölmargir þingmenn hafa þegar gagnrýnt hversu lengi lögregla var að bregðast við árásinni á lestarstöðinni. Þingmaðurinn Lam Cheuk-ting sagði það hafa tekið lögreglu rúman klukkutíma að mæta á staðinn.
Þá benti þingmaðurinn Ray Chan á Twitter á að óvíða í heiminum væru fleiri lögreglumenn á hvern íbúa en í Hong Kong. „Hvar voru þeir?“ spurði hann.
BBC hefur eftir lögreglu nú í morgun að enginn hafi enn verið handtekinn vegna málsins en rannsókn sé í gangi.