Loka landamærum vegna ebólufaraldurs

Heilbrigðisstarfsmaður í Goma tekur hitastigs hjá íbúum. Tveir hafa látist …
Heilbrigðisstarfsmaður í Goma tekur hitastigs hjá íbúum. Tveir hafa látist af völdum ebólu í borginni undanfarinn mánuð. AFP

Yfirvöld í Rúanda hafa lokað landamærunum sem ríkið deilir með Lýðveldinu Kongó, vegna ebólu faraldurs sem hefur kostað yfir 1.800 manns lífið í Kongó undanfarið ár.

Tveir hafa látist af völdum ebólu undanfarinn mánuð í borginni Goma sem, er Kongómegin landamæranna.

Faraldurinn er versti ebólufaraldur í sögu Lýðveldisins Kongós og hafa að minnsta kosti 2.700 manns sýkst af veirunni til þessa. Átakasvæði í Kongó hafa ekki auðveldað heilbrigðisstarfsfólkið, sem orðið hefur fyrir árásum, að koma böndum á faraldurinn. Um 12 ný tilfelli veirunnar greinast daglega að sögn Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

BBC hefur eftir Gilbert Habayarimana borgarstjóra Rubavu, sem er nærri Goma, Rúanda megin landamæranna, að landamærunum hafi verið lokað til að forðast „ónauðsynlega umferð“ til Goma. 

„Við fylgjumst náið með ástandinu í Goma og það verður hægt að opna landamærin hvenær sem er þegar ástandið batnar,“ sagði Habayarimana.

Vill frekar deyja af völdum sjúkdóms en hungurs

Í yfirlýsingu frá forsetaskrifstofu Lýðveldisins Kongós er ákvörðunin um að loka landamærunum „hörmuð“ og hún sögð í andstöðu við ráðleggingar WHO.

Alþjóðaheilbrigðismálstofnunin hefur varað við því að reyna að koma böndum á veiruna með því að hamla ferðafrelsi eða verslun. WHO skilgreindi í síðustu viku ebólu faraldurinn sem alþjóðlegt neyðarástand í heilbrigðismálum, en þetta er hæsta stig neyðarástands sem stofnunin getur lýst yfir. Hefur það einungis verið gert fjórum sinnum áður og var m.a. gert í ebólu faraldri sem kostaði 11.000 manns lífið í vesturhluta Afríku á árabilinu 2014-2016.

Rúandabúar sem fara reglulega yfir landamærin vegna vinnu hafa lýst yfir áhyggjum af ákvörðuninni. „Lokunin kemur sér mjög illa fyrir mig. Ég og börnin mín sjö fáum eitthvað að borða þegar ég fer til vinnu í Goma,“ sagði byggingaverkamaðurinn Ernest Mvuyekure. Já ebóla er hræðileg, en það skiptir mestu málið að lifa af. Ég óttast hungur meira en ebólu. Þeir ættu ekki að loka landamærunum. Ég vil frekar deyja af völdum sjúkdóms en hungurs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert