Bandaríkjaforseti skrúfar upp í tollastríðinu

Donald Trump ræðir við fjölmiðla fyrir utan Hvíta húsið í …
Donald Trump ræðir við fjölmiðla fyrir utan Hvíta húsið í dag. Hann segir að tollar á kínverskar vörur muni enn aukast, 1. september næstkomandi, og er auðsjáanlega ekki ánægður með gang viðræðna við Kínverja. AFP

Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti til­kynnti í dag að 10% inn­flutn­ing­stoll­ar yrðu lagðir á vör­ur frá Kína, sem sam­tals eru flutt­ar inn til Banda­ríkj­anna fyr­ir 300 millj­arða Banda­ríkja­dala á árs­grund­velli. Þetta sagði hann, á Twitter-síðu sinni, að yrði gert frá og með 1. sept­em­ber næst­kom­andi.

Nú þegar heimt­ir Banda­ríkja­stjórn 25% toll af kín­versk­um vör­um sem flutt­ar eru til lands­ins fyr­ir sem nem­ur 250 millj­örðum Banda­ríkja­dala á ári hverju. Rík­in tvö hafa nú lagt tolla, eða sagst ætla að leggja tolla, á nær all­ar vör­ur sem fara þeirra á milli, en Kín­verj­ar hafa svarað Trump með því að leggja tolla á banda­rísk­ar vör­ur á móti.

Hótaði enn hærri toll­um

Trump bætti um bet­ur er hann ræddi við blaðamenn í Hvíta hús­inu í dag og sagði að tíu pró­senta toll­ur­inn væri bara til skamms tíma. Hann gæti hækkað pró­sent­una, eða lækkað hana, allt eft­ir því hvernig samn­inga­nefnd­um ríkj­anna gangi að kom­ast að sam­komu­lagi um viðskipti þeirra á milli, en þær viðræður hafa staðið yfir í Sj­ang­hæ í vik­unni og virðist Trump – af þessu að dæma – ekki par hrif­inn af gangi viðræðna. Hann sagði að hugs­an­lega færu toll­arn­ir yfir 25%.

Trump sagði einnig á Twitter í dag að Kín­verj­ar hefðu svikið gef­in lof­orð um að kaupa „land­búnaðar­af­urðir frá Banda­ríkj­un­um í miklu magni“ og um að hætta sölu fent­anyls til Banda­ríkj­anna, en fent­anyl er afar sterkt ópíum­lyf sem er mis­notað af mikl­um móð af fíkl­um vest­an­hafs og hef­ur dregið marga til dauða.

Við höfnina á Long Beach í Kaliforníu í dag.
Við höfn­ina á Long Beach í Kali­forn­íu í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert