18 farast í skotárás í El Paso

Lögreglumaðurinn Enrique Carillo ræðir við fjölmiðla við verslunarmiðstöðina.
Lögreglumaðurinn Enrique Carillo ræðir við fjölmiðla við verslunarmiðstöðina. AFP

Mannskæð skotárás átti sér stað í verslunarmiðstöð í Texas í dag. Árásin var gerð í Cielo Vista Mall-verslunarmiðstöðinni í El Paso, nærri landamærum Mexíkó. Lögregluyfirvöld í El Paso greindu frá því fyrir skemmstu að 18 hefðu látist í árásinni. Einn maður er nú í haldi lögreglu.

BBC segir 22 hið minnsta hafa leitað sér aðhlynningar við sárum sínum á sjúkrahúsum í grenndinni og hefur lögregla biðlað til almennings að gefa blóð.



CNN-sjónvarpsstöðin sagði fyrr í kvöld að hóp­ur manna sem grunaður væri um árás­ina hefði verið hand­tek­inn og færður í varðhald, en talsmaður lögreglunnar segir yfirvöld hins vegar ekki telja marga hafa verið að verki.

„Við viljum ekki láta neinar ótímabærar upplýsingar frá okkur, ekki þar til við höfum staðreyndirnar á hreinu fyrir ykkur,“ hefur BBC eftir Robert Gomez, talsmanni lögreglunnar.

Lögregla var með mikinn viðbúnað vegna árásarinnar.
Lögregla var með mikinn viðbúnað vegna árásarinnar. AFP

Fyrstu fréttir af skotárásinni bárust um ellefuleytið í morgun að staðartíma og segir BBC fréttir hafa borist af skothvellum á nokkrum stöðum, bæði í Cielo Vista mall og eins í Walmart verslun í nágrenninu. Fréttir af fleiri skothvellum í Bassett, annarri verslunarmiðstöð í nágrenninu voru hins vegar ekki réttar.

„Fyrstu fréttir voru að vopnið væri riffill. Ég get ekki staðfest það strax,“ sagði Gomez. Né heldur gæti hann greint frá neinu varðandi hinn grunaða að öðru leyti en að um karlmann væri að ræða.

Reuters segir KTSM-sjónvarpsstöðina í El Paso hafa birt tvær myndir á vef sínum sem sagðar eru vera af hinum grunaða. Þær voru teknar úr eftirlitsmyndavél er maðurinn gekk inn í Walmart og sýna hvítan karlmann með gleraugu í og dökklitum stuttermabol og með árásarrifill sem hann beinir fram fyrir sig. Þá virðist maðurinn vera með einhvers konar heyrnartól, eða eyrnahlífar.

Lögregla segist ekki telja almenningi vera neina hættu búna, en leit haldi þó áfram. Þá hefur verið opnuð miðstöð fyrir þá sem leita nú ástvina sinna.

„Þetta er harmleikur sem við héldum að myndi aldrei eiga sér stað í El Paso,“ sagði borgarstjórinn Dee Margo. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur einnig tjáð sig um árásina á Twitter og sagði hann fréttir frá svæðinu vera „mjög slæmar, margir hefðu verið myrtir“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert