Lögregla í Texas hefur beðið fólk um að halda sig fjarri verslanamiðstöð í El Paso í Texas vegna byssumanns á svæðinu.
„Vettvangurinn er enn virkur,“ segir í Twitter skilaboðum frá lögregluembættinu í El Paso. Engar fréttir hafa enn borist af því hvort um mannskæða árás sé að ræða, en fréttir á samfélagsmiðlum segja skotum hafa verið hleypt af við WalMart verslun í nágrenni Cielo Vista Mall verslunarmiðstöðinni í úthverfi borgarinnar. Fólk hafi því verið gert að yfirgefa verslunarmiðstöðina í varúðarskyni.
Police in Texas are warning people to stay away from the Cielo Vista Mall area in El Paso due to an active gunman
— Sky News Breaking (@SkyNewsBreak) August 3, 2019
Myndband sem birt var á Twitter virðist sýna viðskiptavini yfirgefa eina verslunina með hendur reistar yfir höfuð.
CNN sjónvarpsstöðin segir um mannskæða árás að ræða og hefur eftir starfsmannastjóra borgarstjórnarskrifstofu El Paso að „fjöldi manns hafi farist í árásinni“.
Áður hafði sjónvarpsstöðin KTSM 9 sagt 18 hafi verið skotna, en tilgreindi ekki hversu margir hefði særst eða látið lífið.
Var hópur manna sem grunaður er um árásina handtekinn og færður í varðhald.
Skotárásir eru algengar í Bandaríkjunum og sl. sunnudag myrti byssumaður þrjá gesti matarhátíðar í Norður-Kaliforníu áður en hann tók eigið líf.
Fréttin hefur verið uppfærð.