Fjöldamorð í Ohio - 9 látin

Lögregluþjónar á vettvangi árásarinnar í nótt.
Lögregluþjónar á vettvangi árásarinnar í nótt. AFP

Níu eru látin og að minnsta kosti 16 særð eftir skotárás í borginni Dayton í Ohio-ríki Bandaríkjanna í nótt. Einnig er árásarmaðurinn látinn, en lögregla skaut hann til bana.

Fyrstu fregnir af skotárásinni bárust um kl. 1 að staðartíma (fimm að íslenskum tíma), en árásin átti sér stað fyrir utan bar í Oregon-hverfi borgarinnar.

Lögregla hefur nú staðfest að hún hafi skotið byssumanninn til bana og níu hafi fallið fyrir hendi hans. Sem áður segir eru sextán til viðbótar særð og hafa þau verið flutt á spítala.

Um er að ræða annað fjöldamorðið í Bandaríkjunum á innan við sólarhring, en byssumaður réðst inn í Walmart-verslun í El Paso í gærkvöldi og myrti þar 20 manns.


Á samfélagsmiðlum má sjá myndskeið af fólki flýja undan árásarmanninum. Samkvæmt frétt BBC átti árásin sér stað fyrir utan skemmtistaðinn Ned Peppers Bar og mun starfsfólkið þar hafa sent frá sér yfirlýsingu um að þau væru öll heil á húfi á Instagram-síðu barsins.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert