Flaggað í hálfa stöng næstu fimm daga

AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur fyrirskipað að bandaríska fánanum skuli flaggað í hálfa stöng fyrir utan og á öllum opinberum byggingum næstu fimm daga til að syrgja fórnarlömb skotárásanna í El Paso í Texas og Dayton í Ohio í Bandaríkjunum.

„Þjóðin syrgir með fjölskyldum þeirra sem myrt voru í skelfilegu skotárásunum, sem áttu sér stað í El Paso og Dayton, og við deilum sársaukanum og þjáningunni með öllum fórnarlömbum þessara óskiljanlegu árása,“ sagði Trump í yfirlýsingu.

„Sem virðingarvott við fórnarlömb þessa hryllilega ofbeldis hef ég ákveðið að bandaríski fánanum verði flaggað í hálfa stöng fyrir utan og á öllum opinberum byggingum fram að sólsetri 8. ágúst.

Tvær skotárásir með stuttu millibili

Tuttugu manns létust í verslun Walmart í El Paso í Texas-ríki eftir að 21 árs gamall maður frá Dallas hóf skothríð þar inni í gær. Að minnsta kosti 26 særðust til viðbótar.

Níu manns létust í skotárás í Dayton í Ohio-ríki í nótt og að minnsta kosti 16 særðust. Árásarmaðurinn lést eftir að lögregla skaut hann til bana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert