„Hefði getað verið mun verra“

Ekki hefur verið gefið út hver árásarmaðurinn í Dayton var …
Ekki hefur verið gefið út hver árásarmaðurinn í Dayton var og ekkert liggur fyrir um ástæður þess að hann greip til vopna gegn samborgurum sínum með þessum hörmungarafleiðingum. AFP

„Eins slæmt og þetta er, þá hefði þetta getað verið mun, mun verra, eins og ég held að allir muni átta sig á þegar frekari upplýsingar berast,“ segir Matt Carper hjá lögreglunni í Dayton í Ohio, þar sem byssumaður myrti níu manns í nótt áður en hann var skotinn til bana af lögreglu.

Carper hrósar snörum viðbrögðum lögreglumanna, sem voru í grenndinni er tilkynning barst um skothríðina. Hann segir árásina hafa staðið yfir í stuttan tíma.

„Við erum mjög heppin að lögreglumennirnir voru í grenndinni og að þeir brugðust við á þann máta sem þeir gerðu,“ sagði Carper við fjölmiðla.

Klæddist skotheldu vesti

Talið er að maðurinn hafi verið einn að verki, en fram hefur komið í fjölmiðlum vestanhafs að hann hafi klæðst skotheldu vesti er hann lét til skarar skríða í Oregon-hverfinu í Dayton um kl. 1 í nótt að staðartíma.

Ekki hefur verið gefið út hver árásarmaðurinn í Dayton var og ekkert liggur fyrir um ástæður þess að hann greip til vopna gegn samborgurum sínum með þessum hörmungarafleiðingum.

29 mannslíf á 13 klukkustundum

Tvö óhugnanleg fjöldamorð hafa heimt 29 mannslíf í Bandaríkjunum síðasta sólarhringinn og tugir til viðbótar eru sárir, en auk árásarinnar í Dayton varð ungur maður 20 manns að bana í Walmart-verslun í El Paso í gærkvöldi.

Það mál er rannsakað sem mögulegur hatursglæpur eða hryðjuverk, en talið er að maðurinn hafi, einungis 19 mínútum áður en hann skaut fyrstu skotunum, birt 2.300 orða manifestó á netinu, þar sem hann talaði gegn innflytjendum og mærði Christchurch-morðingjann sem varð 51 að bana í marsmánuði.

Samkvæmt frétt New York Times eru þessar árásir 31. og 32. fjöldamorðið þar sem skotvopnum er beitt í Bandaríkjunum það sem af er ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert