Embætti saksóknara í El Paso hyggst fara fram á dauðarefsingu yfir manninum sem myrti 20 og særði 26 til viðbótar, er hann hóf skotárás í verslun Walmart í gær.
Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá því að árásarmaðurinn heiti Patrick Crusius og sé 21 árs. Hann er sagður hafa birt stefnuyfirlýsingu, manifestó, þar sem hann fjallaði meðal annars um það sem hann kallaði „innrás“ fólks frá rómönsku Ameríku í Texas-ríki.
„Ég get sagt ykkur það alveg strax að ákæra ríkisins hljóðar upp á morðákæru þannig að hægt er að fara fram á dauðarefsingu yfir honum,“ sagði ríkissaksóknarinn Jaime Esparza við fréttamenn. „Við munum krefjast dauðarefsingar.“
Greg Allen, lögreglustjóri í El Paso, sem er á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna, sagði á blaðamannafundi í gærkvöldi að lögregla væri að skoða þessa stefnuyfirlýsingu mannsins og sagði að hún gæfi til kynna að setja mætti gjörðir hans í samhengi við hatursglæp.
„Við munum sækja málið af hörku, bæði sem morðmál og sem hatursglæpur, sem er nákvæmlega það sem þetta virðist vera,“ hefur BBC eftir Greg Abbott ríkisstjóra Texas á fundi með fréttamönnum.
Sagði Abbot gærdaginn hafa vera einn „mannskæðasta dag í sögu“ Texas, en árásin er sú áttunda mannskæðasta sem orðið hefur í Bandaríkjunum í seinni tíð.
Í frétt AFP um málið er fjallað um það sem stendur í stefnuyfirlýsingu árásarmannsins, sem hann birti að sögn CNN á vefsíðunni 8chan.
Sagði hann þar árásina vera „svar við innrás fólks af rómönskum uppruna inn í Texas“ og vísaði með einhverjum hætti til skotárásanna í Christchurch á Nýja-Sjálandi, þar sem hvítur maður drap 51 múslima í mars á þessu ári.