Lögregla í Dayton í Ohio segir ekkert benda til þess að kynþáttahatur hafi verið ástæða skotárásar sem gerð var utan við bar í borginni aðfaranótt sunnudags og kostaði níu manns lífið.
Bandarískir fjölmiðlar hafa sagt árásarmanninn hafa verið 24 ára mann að nafni Connor Betts sem hóf að skjóta með alsjálfvirkum riffli utan við bar í Oregon-hverfi borgarinnar. Lögreglumenn sem voru í hefðbundinni eftirlitsferð um hverfið voru komnir á staðinn innan við mínútu eftir að fyrsta skotið reið af og felldu árásarmanninn.
„Byggt á þeim upplýsingum sem við höfum núna, þá sjáum við engar vísbendingar um að tilefnið tengist kynþáttahyggju,“ sagði Richard Biehl lögreglustjóri Dayton.
Sex af þeim níu sem létust í árásinni voru svartir og sagði Biehl því engu að síður of snemmt að útiloka að kynáttahatur ætti hlut að máli. „Við erum ekki búin að fara yfir öll sönnunargögnin og þar til við höfum gert það getum við ekki útilokað það,“ sagði hann.
Systir árásarmannsins var meðal þeirra sem létust í árásinni.
Lögreglustjórinn sagði skothylki sem fundust í fórum árásarmannsins gefa til kynna að hann hefði geta skotið allt að 250 skotum, hefði hann ekki verið drepinn af lögreglumönnum innan við mínútu eftir að hann hóf árásina.
Sagði Biehl skotvopn af þessari gráðu í höndum almenns borgara vera „í grundvallaratriðum vandamál“.
Meðal þeirra tæplega 30 sem særðust í árásinni fengu 14 í sig skot, m.a. vinur systurinnar. Sagði Biehl hann vera aðstoða lögreglu við rannsóknina.
Árásarmaðurinn hafði komið með systur sinni og vini hennar í Oregon, sem er skemmtanahverfi borgarinnar, en síðan sagt skilið við þau.
Árásin í Dayton átti sér stað 13 tímum eftir að annar árásarmaður hóf skothríð í Walmart verslun í El Paso sem nú hefur kostað 22 lífið. Hann hafði áður birt stefnuyfirlýsingu, manifestó, þar sem hann fjallaði meðal annars um það sem hann kallaði „innrás“ fólks frá rómönsku Ameríku í Texas-ríki. Lögregla í El Paso segir um hryðjuverk að ræða og hefur sá árásarmaður verið ákærður fyrir morð og kann að eiga dauðarefsingu yfir höfði sér.