Þegar byssumaður hóf skotárás á viðskiptavini Walmart-verslunarinnar í El Paso í Texas á laugardag fórnaði ungt par lífi sínu til að vernda tveggja mánaða son sinn. Þau Jordan og Andre Anchondo höfðu nýlokið við að fagna eins árs brúðkaupsafmæli sínu og voru að kaupa skólavörur, þegar þau urðu á vegi árásarmannsins.
Að sögn lækna er beinbrot litla drengsins líklega til komið af því að Jordan hafi reynt að vernda hann fyrir skotárásinni. Andre faðir hans varð svo fyrir banvænu skoti er hann reyndi að verja þau Jordan.
„Barnið er á lífi vegna hetjudáðar móður þess og föður,“ hefur Guardian eftir Elizabeth Terry, frænku Jordan. „Þau voru greinilega frábærir foreldrar og reiðubúin að fórna sér í allri merkingu orðsins.“
Anchondos-hjónin voru tvö af þeim 31 sem fórst í tveimur skotárásum í Texas og Ohio um helgina.
BBC greinir frá því sem vitað er um hin fórnarlömbin 29.
Angie Englisbee er talin vera elst fórnarlambanna. Hún var 86 ára og hafði nýlokið við að ræða við son sinn í símann á meðan hún beið í röðinni við kassann í Walmart. Nokkrum mínútum síðar gekk árásarmaðurinn þar inn.
Javier Rodriguez var 15 ára. Fjölskylda hans dreifði myndum af honum á samfélagsmiðlum á laugardag í von um að finna hann, en í gær var ótti þeirra staðfestur. Elvira frænka hans birti á Facebook færslu þar sem „mörg tár“ voru sögð hafa fallið vegna dauða Javiers.
Fjölskylda þeirra Leo Campos og Maribel Hernandez staðfesti við CBS4-sjónvarpsstöðina að þau væru í hópi hinna látnu. Segir sjónvarpsstöðin fjölskylduna fyrst hafa vitað að eitthvað væri að þegar hundasnyrtirinn hringdi og lét vita að þau hefðu ekki sótt hundinn sinn í snyrtingu.
Elsa Mendoza de la Mora var sérkennari sem bjó rétt handan landamæranna í Ciudad Juárez í Mexíkó. Hún ferðaðist yfir til Bandaríkjanna flestar helgar til að heimsækja vini og ættingja. Eiginmaður hennar og sonur biðu úti í bíl á meðan hún var drepin.
Arturo Benavides var 67 ára rútubílstjóri og lýstir frænka hans Jacklin Luna honum sem „viljasterkum, gjafmildum og einstökum manni“. Hann var staddur í Walmart með konu sinni sem náði að flýja. Luna auglýsti eftir frænda sínum á Facebook áður en lát hans var staðfest.
María Eugenia Legarreta Rothe var frá Chihuahua í Mexíkó og hafði komið til El Paso til að sækja dóttur sína á flugvöllinn. Hún hafði komið við í Walmart til að kaupa nokkra hluti fyrir heimilið.
Gloria Irma Márquez frá Ciudad Juárez var stödd í El Paso með ættingja er hún var drepin.
Einnig létust í skotárásinni í El Paso þau Iván Filiberto Manzano, Jorge Calvillo García, Sara Esther Regalado og Adolfo Cerros Hernández sem öll voru frá Mexíkó.
Níu létu lífið í Dayton þegar árásarmaður beindi alsjálfvirkum riffli að fólki utan við bar í Oregon-skemmtistaðahverfinu.
Lois Oglesby 27 ára var meðal þeirra sem þar létust. Hún var tveggja barna móðir sem hafði nýlega snúið aftur til vinnu að loknu fæðingarorlofi og starfaði á leikskóla í Dayton.
„Hún var yndisleg móðir, dásamleg manneskja,“ hefur dagblaðið Dayton Daily News eftir Derasha Merret, vinkonu Louis. „Ég er búin að gráta svo mikið að ég get hreinlega ekki grátið meira.“
Megan Betts 22 ára er talin hafa verið eitt af fyrstu fórnarlömbum árásarmannsins, sem var Connor bróðir hennar. Hún var að nema umhverfisfræði.
Logan Turner, 30 ára, hafði nýlega fengið vinnu sem vélamaður í heimabæ sínum Springboro. „Hann var gjafmildur og elskulegur,“ sagði móðir hans Danita Turner í samtali við Dayton Daily News. „Það þótti öllum vænt um hann. Hann var léttlyndur strákur.“
Nicholas Cumer, 25 ára, var frá Pittsburg. Hann var að ljúka lærlingsstöðu við umönnun krabbameinssjúkra í Dayton þegar hann var drepinn og hafði nýlega verið boðið fullt starf hjá krabbameinssamtökum. Samtökin Maple Tree Cancer Alliance lofuðu Nicholas í færslu á Facebook fyrir ljúfmennsku og hve vel hann sinnti sjúklingum sínum.
Thomas McNichols, 25 ára, var fjögurra barna faðir. Hann hafði farið út á lífið með frænda sínum eftir vinnu þegar hann varð á vegi árásarmannsins. „Það þótti öllum vænt um hann. Hann var eins og stór krakki,“ sagði frænka hans Donna Johnson í samtali við WHIOTV-sjónvarpsstöðina.
Aðrir sem létust í árásinni voru Saeed Saleh, 38 ára, Derrick Fudge, 57 ára, Beatrice Warren Curtis, 36 ára, og Monica Brickhouse, 39 ára.