Kínversk stjórnvöld að missa þolinmæðina

Kínverskir ráðamenn á blaðamannafundinum í dag.
Kínverskir ráðamenn á blaðamannafundinum í dag. AFP

Marc Lanteig­ne, lektor við Há­skól­ann í Trom­sö og sér­fræðing­ur á sviði efna­hags­mála Kína, segir fátt hafa komið sér á óvart á blaðamannafundi kínverskra stjórnvalda í morgun. Vara þau mótmælendur við að „ruglast ekki á hömlum og veikleika“.

Mótmælin í Hong Kong hafa nú varað í um tvo mánuði og hafa kínversk stjórnvöld undarfarið orðin óþolinmóðari gagnvart ríkisstjóra Hong Kong, Carrie Lam, og ráðamönnum hennar. Mótmælin hafa oftar en ekki orðið ofbeldisfull og táragasi og gúmmíkúlum beitt ítrekað af lögreglu. 

Lanteigne segir í samtali við mbl.is að líkt og hann bjóst við við hafi kínversk stjórnvöld ítrekað stuðning sinn við Carrie Lam á blaðamannafundinum í morgun. Lam sé ekki á förum líkt og mótmælendur hafa gert kröfu um. 

Carrie Lam, ríkisstjóri Hong Kong á blaðamannafundinum í dag.
Carrie Lam, ríkisstjóri Hong Kong á blaðamannafundinum í dag. AFP

Flestir mótmælenda eru nemar og ungt fólk að sögn Lanteigne. Kínversk stjórnvöld sögðu í morgun að ástæða þess að þorri mótmælenda sé yngra fólk sé sú að „þau skorti þjóðholla og sögulega menntun“.

Enn engin herlög á dagskrá

Lanteigne segist gera ráð fyrir því að flestum hafi verið nokkuð létt eftir blaðamannafundinn, jafnvel þó að kínversk stjórnvöld sýni enn engin merki um að ætla að ganga við kröfum mótmælenda. 

„Ég held að margir hafi óttast að harðneskjulegri stefnur yrðu kynntar, herlög og fleira. Tónninn í ráðamönnum Peking var nokkuð harðari en það í raun breyttist fátt, stjórnvöld vilja bara bíða þetta af sér,“ segir Lanteigne. 

„Það er allt hljótt í dag, engin mótmæli áætluð. Nú geta allir náð andanum. Þetta mun þó líklega breytast fyrir helgina.“

Mótmælandi kastar múrsteini í átt að lögreglu.
Mótmælandi kastar múrsteini í átt að lögreglu. AFP

Lanteigne segir að stjórnvöld hafi sent skýr skilaboð til mótmælenda og varað við því að „leika sér ekki að eldinum.“ Þá var Bandaríkjunum einnig blandað í málið eins og við var að búast. 

„Kínversk stjórnvöld sendu skýr skilaboð til Bandaríkjanna um að skipta sér ekki af gangi máli í Hong Kong. Þau halda því fram að mótmælin séu knúin áfram af ,erlendum öflum,’ sem þýðir í raun bara að þau telji að Bandaríkin styðji mótmælin. 

„Þau sögðu að Bandaríkin væru með kænskubrögðum að reyna að hafa áhrif á önnur lönd sem eru mjög beinskeyttar og óvarlegar fullyrðingar sem ég var alls ekki að búast við svona skyndilega,“ segir Lanteigne. 

Frelsisherinn örþrifaráð

„Það gæti gefið í kynna að hagkerfi Kína sé farið að finna fyrir aukinni pressu sem er að ná til stjórnvalda. Það er að hægja á hagkerfinu og þar skiptir Hong Kong miklu máli sem er ein helsta ástæða þess að það að grípa til Frelsishersins er algjört örþrifaráð.

„Að nota Frelsisherinn (PLA) er allra, allra síðasta úrræði kínverskra stjórnvalda. Þau sögðu í dag að herinn styddi þau og að herinn væri tilbúinn til að „vernda öryggi Kína“ en þau segja hvorki af né á. Það sem helst breytist er að kínversk stjórnvöld eru að verða meira og meira pirruð á ástandinu. En það héldu allir aftur af sér í dag og allir voru varkárir með orð sín.“

Í tilkynningu lögregluyfirvalda í dag kom fram að 148 mótmælendur voru handteknir í gær. Alls hafa tæplega 600 manns verið handteknir síðan mótmælin hófust 9. júní, en ekki liggur fyrir hve mörgum hefur verið sleppt úr haldi. Ekki liggur heldur fyrir hve margir hafa verið ákærðir fyrir óeirðir. 

Lögregla Hong Kong í gærkvöldi.
Lögregla Hong Kong í gærkvöldi. AFP

Mót­mæl­end­ur hafa heitið því að halda her­ferð sinni áfram þar til þeirra helstu kröf­um verður mætt. Krefjast þeir að Carrie Lam, rík­is­stjóri Hong Kong, segi af sér, að sjálf­stæð rann­sókn verði gerð á fram­göngu lög­reglu, að hinum hand­teknu verði veitt náðun og að sjálfs­stjórn­ar­svæðinu verði veitt­ur rétt­ur til að kjósa leiðtoga sína lýðræðis­lega.

Það er því ljóst að blaðamannafundurinn í dag fól ekki í sér nein málalok fyrir mótmælendur og er líklegt að óleyfileg mótmæli hefjist aftur fyrir eða um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert