Vilja ekki Trump til El Paso

22 krossum hefur verið komið fyrir í minningu fórnarlamba árásarinnar …
22 krossum hefur verið komið fyrir í minningu fórnarlamba árásarinnar í Walmart. Fjölmargir hafa minnst fórnarlambanna. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti er væntanlegur á morgun til El Paso í Texas, þar sem 22 voru drepnir í hryðjuverkaárás á Walmart verslun sl. laugardag. Heimsókn forsetans vekur þó blendnar tilfinningar hjá íbúum þessara landamæraborgar, sem margir hverjir eru af suður-amerískum uppruna.

Orðfæri forsetans um innflytjendamál hefur gert marga íbúa El Paso honum andsnúna, en eitt helsta baráttumál Trump hefur verið að stöðva för innflytjenda yfir landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó. Borgarstjóri El Paso og margir íbúar segjast hins vegar taka innflytjendum fagnandi.

Hryðjuverkaárásin á Walmart verslunina er talin eiga rætur sínar í kynþáttahatri. Þannig hafði árásarmaðurinn m.a birt á netinu stefnu­yf­ir­lýs­ingu, mani­festó, þar sem hann fjallaði meðal ann­ars um það sem hann kallaði „inn­rás“ fólks frá rómönsku Am­er­íku í Texas-ríki. Átta hinna myrtu voru mexíkóskir ríkisborgarar.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og forsetafrúin Melania Trump. Von er á …
Donald Trump Bandaríkjaforseti og forsetafrúin Melania Trump. Von er á Trump til El Paso á morgun. AFP

Meðsekur um ofbeldið og hryllinginn

Reuters fréttaveitan segir fregnir af væntanlegri  heimsókn Trump hafa hleypt illu blóði í aktivista á vinstri vængnum sem komu saman við minningarathöfn fyrir fórnarlömbin á mánudagskvöld.

Sumir þeirra sögðu Trump að hluta ábyrgan fyrir blóðbaðinu.

„Hann er meðsekur um allt þetta ofbeldi og hryllinginn sem við erum að upplifa,“ sagði  Rachel Cheek, einn aktívistanna við Reuters.

Þingkonan Veronica Escobar, sem er með El Paso innan sín kjördæmis hvatti þá Trump „til að hugleiða að orð hans og gjörðir eiga hér hlut að máli“. „Frá mínum sjónardyrum séð er hann ekki velkominn hingað,“ hefur MSNBC sjónvarpsstöðin eftir Escobar. „Hann ætti ekki að koma á meðan við syrgjum.

Borgarstjóri El Paso, repúblikaninn Dee Margo, kvaðst hins vegar styðja heimsókn Trump. „Þetta er ekki pólitísk heimsókn,“ sagði hann. „Hann er forseti Bandaríkjanna. Þannig að í því hlutverki mun ég sinna skyldum mínum sem borgarstjóri El Paso og hitta forsetann og ræða við hann um hverjar þarfir samfélags okkar eru.“

Skilti sem komið hefur verið fyrir við Walmart verslunina. Sumir …
Skilti sem komið hefur verið fyrir við Walmart verslunina. Sumir þeirra sem minnst hafa fórnarlamba árásarinnar segja forsetann bera hluta ábyrgðarinnar. AFP

Heimsókn Trump „mjög viðeigandi“

Í ávarpi sínu í gær sagði Trump Bandaríkjamenn verða að „fordæma kynþáttafordóma, þröngsýni og hvíta hægri öfgastefnu“. Þá lagði hann  til að herða eftirlit með netinu, umbætur í geðheilbrigðiskerfinu og aukna notkun dauðarefsingar í kjölfar árásanna í El Paso og Dayton í Ohio, þar sem níu manns létust.

James Peinado, leiðtogi skotvopnasamtakanna Open Carry Texas sem er af suður-amerískum uppruna, sagði heimsókn Trumps „mjög viðeigandi“. Hann kvaðst þó vona að forsetinn notaði diplómatískara orðfæri á meðan íbúar El Paso séu enn að syrgja.

Ýmsir íbúar El Paso höfðu þó öllu neikvæðari sýn á forsetann. Við minningarathöfnin í Casa Carmelita, griðasvæði fyrir hælisleitendur, ræddu margir reiði sína í garð Trump. Minntist fólk þess m.a. að hann hefði sent hersveitir að landamærunum, vísað hælisleitendum á brott og skilið börn frá fjölskyldum sínum.

Greg Abbott, ríkisstjóri Texas og Dee Margo, borgarstjóri El Paso. …
Greg Abbott, ríkisstjóri Texas og Dee Margo, borgarstjóri El Paso. Margo segir heimsókn Trumps ekki vera pólitíska. AFP

„Hvernig  vogar hann sér'“

„Áður voru þessir hlutir faldir, hvíta hægri öfgastefnan, ofbeldið gegn minnihlutahópum,“ sagði Ana Morales. „Hvernig vogar hann sér,“ bætti hún svo við varðandi væntanlega heimsókn forsetans.

„Ég kenni forsetanum okkar um,“ hefur AFP eftir Silviu Rios íbúa El Paso. „Frá þeirri stundu sem hann tók við embætti hefur orðfærið og hatrið beinst gegn fólki af öðrum húðlit. Hann hefur engan rétt á þessu.“

Árásarmaðurinn sem myrti 22 í Walmart og særði á þriðja tug til viðbótar hefur þegar verið ákærður fyrir morð og hefur saksóknari tilkynnt að hann muni krefjast dauðarefsingar verði hann fundinn sekur.

Fólk tekur hér þátt í minningarathöfn um fórnarlömbin utan við …
Fólk tekur hér þátt í minningarathöfn um fórnarlömbin utan við kirkju í nágrenni árásarstaðarins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert