Donald Trump Bandaríkjaforseti kom fyrir skemmstu til El Paso í Texas, þar sem 22 fórust í hryðjuverkaárás á Walmart verslun á laugardag. Fyrr um daginn heimsótti forsetinn Dayton í Ohio, þar sem níu létust í skotárás utan við bar 13 klukkustundum eftir Walmart árásina.
Trump hitti fórnarlömb árásarinnar í Dayton, sem og þá lögreglumenn og sjúkraliða sem fyrstir mættu á staðinn. Á sama tíma kölluðu mótmælendur „Gerðu eitthvað!“ til foretans og „Þú ert ástæðan“ en margir hafa sakað Trump um að auka á spennu með orðfæri sínu um innflytjendur.
Á meðan Trump heimsótti fórnarlömb árásarinnar á Miami Valley sjúkrahúsinu í Dayton biðu hópar mótmælenda fyrir utan og héldu á lofti risablöðru af „barna-Trump“ og skiltum með áletrunum á borð við „Hatur er ekki velkomið hér“ og „Stöðvið hryllinginn“ að því er Reuters greinir frá.
„Guð fylgdist með ykkur. Ég vil að þið vitið að við styðjum ykkur alla leið,“ segir Stephanie Grisham talskona Hvíta hússins á Twitter forsetann hafa sagt við fórnarlömbin.
Skotárásirnar í El Paso og Dayton um helgina kostuðu 31 lífið og hafa blásið nýju lífi í umræðuna um skotvopnaeign.
Áður en Trump hélt til fundar við fórnarlömbin sagði hann fjölmiðlum í Hvíta húsinu að hann vildi auka bakgrunnseftirlit með byssukaupum og tryggja að andlega veikir einstaklingar bæru ekki skotvopn. Kvaðst forsetinn fullviss um að báðir flokkar myndu styðja slíkar aðgerðir, en ekki bann við árásarrifflum. „Ég get alveg sagt ykkur að það er ekki pólitískur stuðningur við slíkt í augnablikinu,“ sagði hann. „En ég mun sannarlega nefna það ... en það er mikill stuðningur og ég meina mjög mikill stuðningur við bakgrunnseftirlit.“
Í Dayton tóku demókratarnir Nan Whaley, borgarstjóri Dayton, og öldungadeildarþingmaðurinn Sherrod Brown á móti forsetahjónunum. Þau sögðu fréttamönnum að þau hefðu hvatt Trump til að fá Mitch McConnell, leiðtoga repúblikana í öldungadeildinni, að kalla þing saman úr sumarfríi til að koma í gegn frumvarpi um aukna bakgrunnsskoðun á byssukaupendum.
„Ég held að hann hafi hlustað á mig,“ sagði Whaley við fréttamenn. „Ég veit þó ekki hvort hann mun grípa til aðgerða varðandi skynsamlega byssulöggjöf.“
Hún kvaðst þá vera sammála þeirri ákvörðun forsetans að heimsækja ekki hverfið þar sem skotárásin átti sér stað með það í huga hversu sterkar tilfinningar málið veki. „Margir þeirra sem eru með fyrirtæki í hverfinu hafa ekki áhuga á að fá forsetann þangað,“ sagði hún. „Oft getur orðræða hans verið sundrandi og það er það síðasta sem við þurfum á að halda hér í Dayton.“
Árásin í El Paso er rannsökuð sem hatursglæpur og hefur bandaríska alríkislögreglan FBI sagt árásarmanninn í Dayton hafa kynnt sér ofbeldishugmyndafræði.
Í opnu bréfi til Trump sem dagblaðið El Paso Times birti í dag er borginni lýst sem landamæraborg með djúpar rætur í samlyndi kynþátta og að fólk þar hafi fundið styrk hjá hvert öðru eftir hörmungarnar. Var forsetinn því næst víttur fyrir að kalla El Paso eina hættulegustu borg Bandaríkjanna í ávarpi sínu fyrir þinginu í febrúar á þessu ári.