Læknar ákærðir fyrir morð á lækni

Stúlka fær hér bólusetningu gegn ebóla veirunni í Lýðveldinu Kóngó. …
Stúlka fær hér bólusetningu gegn ebóla veirunni í Lýðveldinu Kóngó. Mynd úr safni. AFP

Þrír læknar í Lýðveldinu Kongó hafa verið hnepptir í varðhald vegna morðs á lækni frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) sem tók þátt í baráttunni gegn ebólafaraldri í landinu.

Kamerúnski læknirinn Richard Valery Mouzoko Kiboung var skotinn til bana  þann 19. apríl í árás sem gerð var á sjúkrahús í borginni Butembo í austurhluta landsins.

AFP-fréttaveitan hefur eftir saksóknara að læknarnir þrír verði ákærðir fyrir „hryðjuverk“ og „glæpsamlegt samsæri“.

Samkvæmt upplýsingum frá WHO hafði Mouzoko verði sendur á staðinn sem hluti af læknateymi til að reyna að ná tökum á ebóla veiru faraldri sem fyrst varð vart í ágúst í fyrra.

Segir saksóknari læknana þrjá hafa verið meðal „siðfræðilegra höfunda“ árásarinnar á Mouzoko og að eins læknis til viðbótar sé enn leitað vegna málsins.

Félag lækna í Butembo skrifaði borgarstjóra borgarinnar bréf í kjölfar handtöku læknanna og hótuðu að fara í verkfall yrðu læknarnir ekki látnir lausir innan tveggja sólarhringa.

Saksóknari sagði slíkt hins vegar „ekki koma til greina“.

„Þetta er viðkvæmt staða. Það dó maður og við verðum að vita hvað gerðist,“sagði Jean-Jacques Muyembe sem sér um samhæfingu aðgerða gegn ebólu í Lýðveldinu Kongó. 

Rúmlega 1.800 manns hafa látið lífið af völdum veirunnar undanfarið ár og er þetta annar mannskæðasti ebóla faraldurinn sem sögur fara af, en 11.300 manns létust í ebólafaraldri í Vestur-Afríku á árabilinu 2014-2016.

Illa hefur gengið að ráða niðurlögum veirunnar, m.a. vegna átaka í landinu og eins vegna tortryggni íbúa í garð fyrirbyggjandi aðgerða. Þá hafa árásir á heilbrigðisstarfsfólk einnig haft hörmuleg áhrif, en sjö heilbrigðisstarfsmenn hafa verið myrtir og yfir 50 hafa slasast alvarlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert