Miklir skógareldar geisa nú í fjalllendi Gran Canaria, næst fjölmennustu eyju Kanaríeyja. Þá hefur nokkrum vegum verið lokað og búið að rýma tíu heimili í Peña Rajada. Viðbragðsaðilar telja sig hafa nægilega stjórn á útbreiðslu eldanna svo þeir dreifist ekki til byggða, þó geta þeir breiðst út upp fjallshlíðar, að því er fram kemur í umfjöllun The Canary News.
Þar segir að gáleysi 55 ára manns hafi orsakað að eldur hafi brotist út þegar hann var að nota logsuðutæki. Mikill hiti hefur verið undanfarið og er því skóglendi eyjunnar mjög þurrt.
Tíu loftförum hefur verið ráðstafað til þess að ráða niðurlögum eldsins sem þekur um tíu ferkílómetra svæði innan sveitarfélagana Artenara, Tejeda og Gáldar. Um tvö hundruð manns sinna nú slökkvistarfi og er íbúafjöldi eyjunnar um 850 þúsund.
Sveinn H. Guðmarsson, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir í samtali við mbl.is ráðuneytið ekki hafa tölu yfir þann fjölda Íslendinga sem eru á eyjunni. Jafnframt hafi ráðuneytinu ekki borist beiðni um aðstoð, en að ráðuneytið sé undir það búið að bregðast við þeim beiðnum sem gæti borist „eins og venjulega.“