Skýr viðvörun til mótmælenda í Hong Kong

Kínverskir sérsveitarmenn við æfingar á íþróttaleikvangi í borginni Shenzhen í …
Kínverskir sérsveitarmenn við æfingar á íþróttaleikvangi í borginni Shenzhen í morgun. AFP

Hundruð kínverskra sérsveitarmanna voru í dag við æfingar á íþróttaleikvangi í kínversku borginni Shenzhen, sem er nágrannaborg Hong Kong. Reuters fréttaveitan segir æfinguna vera hreina og klára viðvörun til mótmælenda í Hong Kong. Um er að ræða sérsveitarlögreglumenn, sem hlotið hafa herþjálfun.

Bandaríska utanríkisráðuneytið lýsti í gær yfir áhyggjum af að sérsveitir verði sendar yfir til Hong Kong til að brjóta  á bak mótmælin, sem nú hafa staðið yfir í á tíundu viku. Hvatti ráðuneytið kínversk stjórnvöld til að virða málfrelsisrétti íbúa.

Yfir hundrað dökkleitir bílar, sumir þeirra brynvarðir, fyrir utan leikvanginn.
Yfir hundrað dökkleitir bílar, sumir þeirra brynvarðir, fyrir utan leikvanginn. AFP

Vestrænir og asískir diplómatar í Hong Kong sem Reuters ræddi við telja hins vegar ólíklegt að kínverskum stjórnvöldum hugnist að senda sérsveitarlið eða kínverska alþýðuherinn út á götur Hong Kong að svo komnu.

Engu að síður mátti sjá sérsveitarmenn að störfum á íþróttaleikvanginum og hafði rúmlega hundrað dökkleitum sérsveitarbílum veri' lagt þar fyrir utan, m.a. brynvörðum bílum, opnum herflutningabílum, rútum og jeppum. Að minnsta kosti þrjú faratækjanna voru brynvarðar gröfur og tveir bílanna voru með vatnsbyssu á pallinum.

Sérsveitarmenn við æfingar í Shenzhen fyrr í mánuðinum.
Sérsveitarmenn við æfingar í Shenzhen fyrr í mánuðinum. AFP

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef séð svona fjölmenna samkomu,“ sagði  Yang Ying, sem starfar í móttöku líkamsræktarstöðvar sem tengist íþróttaleikvanginum. „Það hafa verið haldnar æfingar áður, en þær hafa yfirleitt tengst umferðalögreglunni.“

Kínverskir fjölmiðlar hafa margir hverjir greint frá æfingunni í dag og segir Reuters sérsveitir hafa sést marsera inn og út af leikvanginum og hafi sumir þeirra klæðst herbúningum í felulitunum.

Kínverska ríkisblaðið Global Times birti fyrr í vikunni myndband á vef sínum sem sýndi raðir herbíla og sérsveitarmanna á ferð um borgina. Um væri að ræða umfangsmikla æfingu og sagði ritstjóri blaðsins, Hu Xinjin á Twitter að um væri að ræða „skýra viðvörun til mótmælenda í Hong Kong.“

Sérsveitarmenn við æfingar í Hong Kong fyrr í mánuðinum.
Sérsveitarmenn við æfingar í Hong Kong fyrr í mánuðinum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert