Ný ebólusmit í Kongó

Talið er að um 160.000 manns hafi þegar verið bólu­sett …
Talið er að um 160.000 manns hafi þegar verið bólu­sett gegn ebólu. Hins veg­ar hafa 1.900 manns lát­ist í Kongó á tæpu ári af um 2.500 manns sem hafa greinst með veiruna. AFP

Ebólu-smit hafa verið staðfest í Suður-Kivu héraði í Lýðveldinu Kongó. 26 ára karlmaður er látinn og eitt barna hans er smitað og hefur verið komið undir læknishendur.

Þetta er í fyrsta sinn sem ebólu-smit greinist í héraðinu en fyrsta tilfelli ebólu í landinu greindist í ágúst í fyrra. Alls hafa um 1.900 manns látið lífið í ebólu-faraldrinum og í síðasta mánuði lýsti Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­in (WHO) yfir neyðarástandi vegna ástandsins. 

Héraðsstjóri Suður-Kivu hefur sent viðbragðsteymi heilbrigðisfólks á staðinn sem mun veita stuðning vegna smitanna. 

Ebólufaraldurinn sem nú geisar er sá tíundi síðan sjúkdómurinn greindist fyrst árið 1976. Faraldurinn nú er jafnframt sá versti síðan árin 2014-2016 þegar um 11.000 manns létust í Gíneu, Síerra Leóne og Líberíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert