Tugir þúsunda aðgerðasinna í Hong Kong ganga nú um götur sjálfstjórnarhéraðsins og mótmæla friðsamlega. Tilgangurinn er að sýna stjórnvöldum að mótmælendur hafa enn gríðarlegan stuðning almennings á bak við sig þrátt fyrir ofbeldi í þeirra garð og hótanir frá Kína.
Mótmæli hafa nú staðið reglulega yfir síðan snemma í júní á þessu ári. Til að byrja með fóru þau nokkuð friðsamlega fram þó að kvartað hafi verið yfir óþarflega mikilli hörku lögreglumanna í garð mótmælenda. Nú síðustu vikur hefur harkan aukist á báða bóga og mörgum þykir nóg um.
Kínversk stjórnvöld hafa kallað eftir harkalegum aðgerðum stjórnvalda í Hong Kong gegn mótmælendum en tugir þeirra hafa verið handteknir. Margir eru illa haldnir eftir átök við lögreglu.
Mótmælin hófust upprunalega vegna umdeilds framsalsfrumvarps sem ríkisstjóri Hong Kong, Carrie Lam, hugðist leggja fram. Það hefði heimilað Hong Kong að framselja afbrotamenn til Kína. Íbúar Hong Kong töldu það vera skýrt merki um að Kína væri að auka völd sín yfir sjálfstjórnarhéraðinu og mótmæltu.
Í framhaldinu voru mótmælendur beittir ofbeldi af lögreglu og Carrie Lam kallaði mótmælendur óeirðaseggi. Nú er þess krafist að aðgerðir lögreglunnar verði rannsakaðar, hinum handteknu mótmælendum verði sleppt úr haldi lögreglu, Carrie Lam biðjist afsökunar á orðum sínum og segi af sér auk þess sem krafist er þess að frumvarpið verði tekið alfarið af dagskrá þingsins en framlagningu þess ekki einungis frestað.
Síðustu mótmæli hafa verið nokkuð friðsamlega og hafa mótmælendur gripið á það ráð að fylla alþjóðaflugvöllinn í Hong Kong og komu þannig í veg fyrir að hægt væri að starfrækja hann. Aflýsa þurfti áætlunarflugi vegna þeirra aðgerða.
Að minnsta kosti tvisvar hafa grímuklæddir menn ráðist að mótmælendum með ýmsum bareflum og eru þeir taldir af sumum vera glæpagengi á vegum kínverskra stjórnvalda.
Lögregluyfirvöld gáfu skipuleggjendum leyfi til að halda mótmælafund í dag en ekki fyrir mótmælagöngu. Þau fyrirmæli voru virt að vettugi og mótmælendur fylltu götur sjálfstjórnarhéraðsins í morgun og dag.
„Ef stjórnvöld í Peking og Hong Kong ætla sér að bíða eftir að andspyrnuhreyfingin deyi út þá hafa þeir rangt fyrir sér. Við munum berjast áfram,“ sagði talsmaður Civil Human Rights Front-samtakanna sem hafa skipulagt mótmæli.
Svo virðist sem þolinmæði Kínverja sé að renna út en þeir hafa verið að færa hersveitir sínar nær mörkum Hong Kong. Þá hafa hundruð kínverskra sérsveitarmanna verið við æfingar í kínversku borginni Shenzhen sem er nágrannaborg Hong Kong. Sagt er að það sé hrein og klár viðvörun til mótmælenda í Hong Kong.
Vestrænir leiðtogar hafa blandað sér í málið og hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti meðal annars kallað eftir stillingu. Hann hefur boðist til að ræða við Xi Jinping, forseta Kína, um málefni Hong Kong og telur hann kínverska forsetann geta leyst deiluna fljótt og mannúðlega.