Um 5.000 manns hafa nú þurft að yfirgefa heimili sín á eyjunni Gran Canaria á Kanaríeyjum vegna gróðurelda sem þar geisa. Vöruðu yfirvöld á eyjunni í gær við að það kunni að taka nokkra daga að ná stjórn á eldinum.
Eldarnir kviknuðu í nágrenni bæjarins Tejada og hafa breiðst út um fjalllendið í Cruz de Tejada, sem er vinsæll útsýnisstaður ferðamanna. Yfir 1.700 hektarar lands hafa nú þegar brunnið í eldunum og loka hefur þurfti 11 vegum.
AFP-fréttaveitan hefur eftir Angel Victor Torres, forseta Kanaríeyja, að eldarnir logi af miklum ofsa og séu óstöðugir.
Ekki er vitað til þess að neinn hafi farist, en meira en 600 slökkviliðsmenn reyna nú að ráða niðurlögum eldanna og njóta við það aðstoðar 14 flugvéla. Kraftmiklir vindar og mikill hiti hamla þó slökkviliðsaðgerðum.
Samkvæmt veðurspám á hitinn að færast í aukana á Kanaríeyjum í dag og telja yfirvöld það því geta tekið nokkra daga áður en stjórn næst á eldunum.
„Næstu klukkutímar munu skipta miklu máli af því að veðurspáin fyrir kvöldið er ekki góð,“ sagði Torres.
Aðeins nokkrir dagar eru síðan gróðureldar brutust út á öðrum stað í héraðinu og þurftu í kjölfarið hundruð að yfirgefa heimili sín.
Gran Canaria er næstfjölbýlasta eyjan í Kanaríeyjaklasanum sem er vinsæll viðkomustaður ferðamanna, en um 13,7 milljónir ferðamanna heimsóttu eyjarnar í fyrra.