Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að viðbrögð Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, með því að neita að ræða við hann um mögulega sölu á Grænlandi hafa verið „andstyggileg”.
Trump sagðist við blaðamenn hafa móðgast vegna ummæla Frederiksen um að slíkur samningur væri fáránlegur. „Hún setti þetta ekki fallega fram. Hún hefði getað sagt nei, við höfum ekki áhuga,” sagði Trump.„Hún er ekki bara að tala við mig, hún er að tala við öll Bandaríkin.”
Frederiksen sagðist á blaðamannafundi í fyrr í dag vera bæði örg og undrandi yfir ákvörðun Trump um að aflýsa heimsókn sinni til Danmerkur. Til stóð að hann kæmi þangað í heimsókn í upphafi næsta mánaðar, eða eftir tólf daga.
Frederiksen sagðist, líkt og fjölmargir, hafa hlakkað til heimsóknarinnar og undirbúningur hennar hafi verið í fullum gangi. Hún undirstrikaði þó að ákvörðunin yrði ekki til þess fallin að breyta „því góða sambandi sem er milli Danmerkur og Bandaríkjanna“.