Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur ákveðið að fresta fundi sínum með Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. Hann segir það vera vegna þess að hún hafi sagst engan áhuga hafa á að ræða saman um möguleg kaup Bandaríkjanna á Grænlandi.
Fyrirhuguð hefur verið opinber heimsókn forsetans til Danmerkur í byrjun septembermánaðar, en útlit er fyrir að ekkert verði af henni sé tekið mið af þeirri orðsendingu sem Trump tísti nú um miðnætti að íslenskum tíma.
„Þetta er fáránleg umræða,“ sagði Frederiksen í samtali við danska ríkisútvarpið DR í gær.
„Kim Kielsen [leiðtogi grænlensku landstjórnarinnar] hefur að sjálfsögðu þegar gert það alveg ljóst að Grænland er ekki til sölu, þannig að nú hættir þessi umræða. Það er hins vegar heilmargt annað sem við gjarnan viljum ræða við Bandaríkjaforseta um,“ bætti hún við.
Trump tekur fram að forsætisráðherrann hafi sparað heilmikinn kostnað og vinnu fyrir bæði Bandaríkin og Danmörku með því að senda svo skýr skilaboð út á við. Segist hann að lokum hlakka til að reyna að koma á öðrum fundi með ráðherranum í framtíðinni.
Ekki eru nema þrír dagar liðnir síðan forsetinn fullyrti að áhugi hans á því að kaupa Grænland hefði ekkert með þessa fyrirhuguðu heimsókn að gera.
„Það er alls ekki ástæðan,“ sagði hann í samtali við Washington Post á sunnudag.
Bætt við klukkan 7:40
Yfirmaður samskiptamála hjá dönsku konungsfjölskyldunni, Lene Balleby, staðfestir við BBC að þau hafi verið upplýst um þessa breyttu áætlun forseta Bandaríkjanna og hún komi á óvart.
Fréttamaður danska ríkisútvarpsins í Bandaríkjunum, Lillian Gjerulf Kretz, segir í frétt DR að afboðunin sé ekki bara brot á öllum diplómatískum samskiptum heldur geti þetta haft alvarleg áhrif á samskipti ríkjanna tveggja.
Allt bendir til þess að ekkert samband hafi verið haft við sendiherra Danmerkur í Bandaríkjunum, Carla Sands, því hún skrifar á Twitter aðeins nokkrum klukkutímum áður en Trump tilkynnir á Twitter að hann sé hættur við: Danmörk er reiðubúin fyrir forsetann. Velkominn Donald Trump forseti, félagi, bandamaður, vinur.
Kretz segir í frétt DR að Trump hafi brotið allar reglurnar í handbók diplómata með þessu. Svona er ekki gert nema vegna andláts innan fjölskyldunnar eða þjóðaröryggi sé í hættu. Til að mynda þegar Margrét Danadrottning hætti við opinbera heimsókn til Tyrklands árið 2016 þegar neyðarástand ríkti í landinu.
Í frétt danska ríkisútvarpsins er vísað til fregna CNN og og Washington Post þar sem fjölmiðlarnir segja afboðunin afar vandræðalega. Jafnvel Fox News hafi gagnrýnt ákvörðun Trumps.