Íbúar á Kanarí geta farið heim

Slökkviliðsmenn að störfum á Kanaríeyjum.
Slökkviliðsmenn að störfum á Kanaríeyjum. AFP

Flestir íbúar á Gran Can­aria, einni Kana­ríeyj­anna, geta snúið aftur til síns heima vegna mikilla gróðurelda sem hafa geisað þar undanfarið. Alls þurftu um 10 þúsund manns í fjölmörgum bæjum á eyjunni að yfirgefa heimili sín um tíma vegna hættunnar. 

Hægari vindur, lægra hitastig og meiri raki í lofti hefur auðveldað slökkvistarf síðustu daga sem hefur staðið yfir frá því síðastliðinn laugardag. Gróðureldarnir hafa logað glatt á vesturhluta eyjunnar og hafa eldtungurnar náð í um 50 metra hæð.  

„Eldurinn er orðinn stöðugur. Veðráttan er okkur hagstæð, hitinn er lægri og rakinn meiri. Ef allt gengur að óskum á næstu dögum getum við náð tökum á ástandinu,“ segir Federico Grillo, slökkviliðsstjóri Kanaríeyja.  

Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, heimsótti Kanaríeyjar í dag.
Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, heimsótti Kanaríeyjar í dag. AFP

Hins vegar er útlit fyrir að veðurspáin breytist næstu daga, hitastigið verði hærra og rakastigið minni sem gæti orðið til þess að gróðureldarnir sæki í sig veðrið á ný. Þar af leiðandi hyggjast slökkviliðsmenn ekki draga úr viðbúnaði sínum vegna eldanna. 

Þetta eru mestu gróðureldar á Spáni á þessu ári. Ekki er vitað um eldsupptök því ekki hefur verið unnt komast á það svæði þar sem eldurinn kviknaði. Á síðustu tveimur vikum hafa þrír gróðureldar kviknað á Gran Canari þar sen um 12.000 hektarar hafa brunnið. Eldarnir hafa logað fjarri fjölsóttum ferðamannastöðum. 

Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, heimsótti Gran Can­aria í dag. 

Gróðureldarnir sjást langar leiðir.
Gróðureldarnir sjást langar leiðir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert