Vill að Danir eyði meiru í her

Donald Trump á ársfundi bandarískra uppgjafarhermanna í gær.
Donald Trump á ársfundi bandarískra uppgjafarhermanna í gær. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti gagnrýndi í dag Dani á Twitter fyrir að greiða ekki nægilega til Atlantshafsbandalagsins. Sagði forsetinn að Danir verðu „aðeins 1,35% af landsframleiðslu til NATO“ en ættu sem ríkt land að vera í 2%. Þá segir hann Bandaríkin verja mun meiru. Tilefni ummælanna er vafalítið orðaskipti forsetans og Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, eftir að sú danska neitaði að ræða um sölu á Grænlandi á fundi þeirra tveggja sem til stóð að yrði haldinn í byrjun næsta mánaðar.

Gerir forsetinn hér enn einu sinni engan greinarmun á útgjöldum til Atlantshafsbandalagsins, og herútgjöldum almennt. Viljayfirlýsing ríkja bandalagsins kveður á um að þau skuli stefna að því að verja tveimur prósentum af landsframleiðslu til varnarmála. Því fer hins vegar fjarri að þau útgjöld séu öll til Atlantshafsbandalagsins.

Bandaríkjamenn verja um 3,2 prósentum af landsframleiðslu til hermála og ýjar forsetinn að því að það sé gert til að verja Evrópuríki. Þrátt fyrir það hefur forsetinn ekki verið á þeim buxunum að draga úr hergjöldum Bandaríkjamanna, þvert á móti, og kynni einhverjum að detta í hug að útgjöldunum væri fyrst og fremst ætlað að vernda bandaríska hagsmuni.

Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, svaraði forsetanum á Twitter og rifjaði upp orðaskipti þeirra á NATO-fundinum í Brussel í fyrra þar sem Løkke benti Trump á að Danir hefðu misst álíka marga hermenn og Bandaríkjamenn í stríðinu í Afganistan. Ekki mætti aðeins mæla fórn í peningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert