Til átaka kom milli óeirðalögreglunnar í Hong kong og mótmælenda í dag. Lögreglan beitti táragasi og kylfum á mótmælendur sem voru með bambusspjót á lofti og grýttu lögregluna með steinum og öllu lauslegu. Háskólanemar hafa verið fjölmennasti hópur mótmælenda.
Undanfarið hafa mótmælin farið friðsamlega fram. Þúsundir mótmælenda lögðu leið sína í gegnum iðnaðarsvæðið Kwun Tong með gasgrímu og hjálma á höfði. Þar hindraði lögreglan för þeirra og hafði stillt sér upp með skildi fyrir framan lögreglustöðina. Til átaka kom á milli þeirra með fyrrgreindum afleiðingum. Fremstir í flokki mótmælenda voru hinir svokölluðu „hugrökku“.
Nokkrir svartklæddir mótmælendur voru hnepptir í varðhald. Mótmælendur beina spjótum sínum að lögreglunni sjálfri í aðgerðum sínum því hún hefur verið gagnrýnd fyrir harkalegar aðgerðir gegn mótmælendunum. Mótmælin hafa staðið yfir síðustu mánuði.
„Mér sýnist það ekki bera neinn árangur að mótmæla friðsamlega,“ segir 19 ára gamall háskólanemi við AFP sem kemur fram undir nafninu Ryan. Hann segir ennfremur að stjórnvöld bregðist ekki við friðsælum mótmælum. „Ef ég er handtekinn er það vegna þess að ég er að reyna að ná fram réttlæti,“ segir hann.
Mótmælin hófust upprunalega vegna umdeilds framsalsfrumvarps sem ríkisstjóri Hong Kong, Carrie Lam, hugðist leggja fram. Það hefði heimilað Hong Kong að framselja afbrotamenn til Kína. Íbúar Hong Kong töldu það vera skýrt merki um að Kína væri að auka völd sín yfir sjálfstjórnarhéraðinu og mótmæltu.