Afskipti erlendra ríkisstjórna í málefnum Hong Kong væru hörmuleg, sagði Carrie Lam, ríkisstjóri Hong Kong, í dag. Bætti hún við að stigmögnun ofbeldis gæti ekki leyst þau samfélagslegu vandamál sem Hong Kong stæði frammi.
Til átaka kom á ný milli mótmælenda og lögreglu í Hong Kong um helgina og beitti lögregla m.a. táragasi gegn mótmælendum sem sumir höfðu brotið rúður í verslunum og kveikt elda á götum úti.
„Það er algjörlega óviðeigandi fyrir erlend þjóðþing að skipta sér af innri málefnum HKSAR á nokkurn hátt og við munum ekki leyfa Bandaríkjunum að verða aðili að málum HKSAR,“ hefur Reuters-fréttaveitan eftir Lam. Með því að vísa til Hong Kong sem HKSAR vísaði hún til stöðu Hong Kong sem sérstaks sjálfstjórnarhéraðs innan Kína.
Þegar mótmælendur komu saman framan við sendiráðsskrifstofu Bandaríkjanna í Hong Kong á sunnudag veifuðu sumir mótmælenda bandaríska fánanum og óskuðu eftir aðstoð Bandaríkjanna við að koma á lýðræði í Hong Kong. Hvöttu þeir m.a. Bandaríkin til að samþykkja lög sem myndu heimila bandarískum stjórnvöldum að gera árlega úttekt á því hvort Hong Kong njóti nægrar sjálfstjórnar frá Kína til að viðhalda sérstöku viðskipta- og efnahagssambandi Bandaríkjanna og Hong Kong.
Bretar afhentu Kína Hong Kong árið 1997 og var það gert með þeim formerkjum að Hong Kong myndi njóta ákveðinna sérréttinda sem ekki viðgangast á meginlandinu. Íbúar Hong Kong hafa hins vegar margir hverjir áhyggjur af því að kínversk yfirvöld séu hægt og rólega að grafa undan sjálfstjórn Hong Kong. Þau neita því hins vegar alfarið að þau hafi afskipti af innri málefnum Hong Kong.