Lögreglumaður skaut mótmælanda í Hong Kong í bringuna í átökum í borginni í dag „Lögreglumaður hleypti af byssu sinni þegar ráðist var að honum og mótmælandi varð fyrir skotinu,“ segir heimildamaður AFP-fréttastofunnar. Hinn særði fékk aðhlynningu frá sjúkraflutningamönnum áður en hann var fluttur á sjúkrahús og er hann í lífshættu. Þá hafa 14 til viðbótar verið fluttir á sjúkrahús vegna ýmissa áverka.
Mótmæli hafa farið fram í Hong Kong síðustu 17 helgar en mótmælendur safnast einnig saman í dag til að draga athyglina frá hátíðarhöldum vegna 70 ára afmæli alþýðulýðveldisins Kína, sem fagnað er í dag. Mótmælendur í Hong Kong hafa kallað daginn í dag dag sorgar og hafa þeir tekist hart á við lögreglu í sjálfsstjórnarborginni.
Mótmælendur kasta bensínssprengjum að lögreglu sem svarar með því að beita táragasi. Þá hafa mótmælendur dreift baunum á götur borgarinnar til að reyna að hægja á aðgerðum lögreglu.
Átök milli mótmælenda og lögreglu hafa stigmagnast frá því að mótmælin hófust, en uppaf þeirra má rekja til lagafrumvarps sem heimila átti framsal meintra brotamanna til meginlands Kína, en þróuðust síðan upp í ákall um auknar lýðræðisumbætur og að kínversk stjórnvöld létu borgina afskiptalausa. Yfir 1.300 manns hafa verið handteknir frá því að mótmælin hófust.
Hér má fylgjast með beinni lýsingu BBC af mótmælunum í Hong Kong