Þrír létust í eldsvoða í matvöruverslun í höfuðborg Síle, Santiago, í gær en mótmæli vegna hækkaðs verðs neðanjarðarlestarmiða hafa nú staðið yfir í tvo daga.
Tveir létust á staðnum en sá þriðji af sárum sínum á sjúkrahúsi skömmu síðar.
Mótmælendur hafa sett upp vegatálma og kveikt í farartækjum auk þess sem þeir ráðast gegn lögreglu og herliði sem sent hefur verið til þess að hafa hemil á mótmælendum.
Sebastian Piñera hefur þegar dregið farmiðahækkanirnar til baka í tilraun til þess að róa lýðinn en sú ákvörðun hans hefur ekki borið árangur.
Á fjórða hundrað hafa verið handtekin og 156 lögregluþjónar slasast í óeirðunum, sem eru þær verstu í áratugi í Síle.