Kínverska lögreglan handtók kunna blaðakonu

Mótmælt hefur verið í Hong Kong síðustu fimm mánuði.
Mótmælt hefur verið í Hong Kong síðustu fimm mánuði. AFP

Kínverska lögreglan handtók kunna kínverska blaðakonu sem fjallaði um mótmælin í Hong Kong. Hún var handtekinn þegar hún sneri aftur til síns heima nýverið. Huang Xueqin fór til Hong Kong í sumar og skrifaði að minnsta kosti tvær fréttaskýringar um mótmælin sem brutust út fyrir um fimm mánuðum. 

Xueqin varð þekkt í heimalandi sínu eftir að hún fjallaði um #MeToo—byltinguna í Kína í fyrra. Hún greindi meðal annars sjálf frá þeirri áreitni sem hún mátti þola þegar hún steig sín fyrstu skref í starfi sem blaðamaður á kínverskum fjölmiðlum. Hún hvatti einnig kynsystur sínar að stíga fram og gera slíkt hið sama.  

Þegar Xueqin kom aftur til borgarinnar Guangzhou tóku yfirvöld hana fanga og gerðu vegabréf hennar upptækt. Lögreglan verst fregna og vill lögfræðingur hennar heldur ekki tjá sig við fjölmiðla. 

Xueqin hafði áður greint frá því að fjölskylda hennar hafi orðið fyrir aðkasti kínverskra yfirvalda vegna veru hennar sjálfrar í Hong Kong. Hún er sjálfstætt starfandi blaðamaður og miðlar efni sínu á netið. Í greinum sem hún skrifaði um mótmælin hefur hún meðal annars sagt að „harðstjórarnir geti mögulega brotið fólkið á bak aftur en þeir geti aldrei unnið hjörtu fólksins.“

Yaqiu Wang, talsmaður Mannréttindavaktarinnar og vinur Xueqin, óttast að hún eigi yfir höfði sér þunga refsingu. Wang sagði ennfremur að stjórnvöld í Kína óttist að mótmælin eigi eftir að breiða úr sér yfir til Kína.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka