Ítalski skurðlæknirinn Paolo Macchiarini hefur verið dæmdur í sextán mánaða fangelsi af dómi í Flórens á Ítalíu. Ítalskir fjölmiðlar greindu frá þessu og sænska ríkisútvarpið fjallaði í kjölfarið um málið. Vísir greindi fyrst frá málinu.
Dómur yfir Macchiarini féll síðastliðinn föstudag og var hann meðal annars dæmdur fyrir skjalafals og að misnota aðstöðu sína þegar hann starfaði á spítala í Flórens.
Hann falsaði gögn í því skyni að geta framkvæmt barkaaðgerð á vini sínum án þess að vinurinn þyrfti að greiða fyrir en sá var ekki með evrópskt sjúkratryggingakort.
Þá er hann sagður hafa falsað biðlista og önnur skjöl meðan á dvöl hans í Flórens stóð á árunum 2009 til 2012.
Macchiarini varð heimsfrægur eftir að hann græddi plastbarka í Erítreumanninn Andemariam Teklesenbet Beyene, sjúkling Tómasar Guðbjartssonar skurðlæknis, árið 2011 þegar hann starfaði á Karolinska-sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Hann græddi plastbarka í tvo sjúklinga til viðbótar en allir þrír sjúklingarnir eru nú látnir.
Saksóknaraembætti í Svíþjóð hóf rannsókn árið 2015 á Macchiarini vegna aðgerðarinnar á Beyene. Hann var á endanum ákærður fyrir að hafa valdið dauða sjúklinganna þriggja en ákærurnar voru felldar niður vegna þess að ekki væri hægt að sanna að plastbarkarnir sem Macchiarini græddi í sjúklingana hefðu valdið dauða þeirra.
Sænsk siðanefnd komst að þeirri niðurstöðu árið 2017 að Macchiarini hefði gerst sekur um vísindalegt misferli við rannsóknirnar á ígræðslunum. Ári seinna voru vísindagreinar eftir Macchiarini sem höfðu birst í læknaritinu Lancet dregnar til baka.
Rannsóknarnefnd, sem skipuð var af forstjóra Landspítalans og rektor Háskóla Íslands, komst að þeirri niðurstöðu árið 2017 að Macchiarini hefði blekkt Tómas Guðbjartsson í aðdraganda aðgerðarinnar á Beyene.