Segist hafa verið pyntaður í Kína

Mótmælendur í Hong Kong.
Mótmælendur í Hong Kong. AFP

Fyrrverandi starfsmaður á ræðismannsskrifstofu Bretlands í Hong Kong segist hafa verið pyntaður í Kína og sakaður um að hvetja til pólitískrar ólgu í borginni.

Simon Cheng, sem starfaði fyrir bresk stjórnvöld í tæp tvö ár, var í haldi í fimmtán daga er hann ferðaðist til Kína í ágúst.

„Ég var handjárnaður, bundið var fyrir augu mín og hetta var sett yfir hausinn á mér,“ sagði Cheng, sem er 29 ára, í samtali við BBC.

Bresk stjórnvöld telja að frásögn Cheng, um að hann hafi verið laminn og neyddur til að skrifa undir játningar, eigi við rök að styðjast.

Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, hefur boðað sendiherra Kína á sinn fund vegna málsins.

„Okkur er misboðið vegna þeirrar svívirðilegu meðferðar sem Cheng hlaut þegar hann var í haldi á meginlandi Kína [...] og við höfum gert kínverskum yfirvöldum grein fyrir því að við viljum að þau fari yfir málið og láti þá sem bera ábyrgð á þessu svara til saka.“   

Kínversk yfirvöld hafa ekki svarað fyrirspurnum BBC, enn sem komið er.

Dominic Raab.
Dominic Raab. AFP

Cheng bauðst á sínum tíma til að safna upplýsingum fyrir bresku ræðismannsskrifstofuna um mótmælin í landinu.

Fram kemur í frétt BBC að hann hafi á engan hátt hvatt til mótmælanna heldur fylgdist hann eingöngu með þeim.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka