Útilokar flugskeyti

AFP

Yfirmaður farþegaflugs í Íran, Ali Abedzadeh, segist viss um að úkraínsku farþegaþotunni sem fórst skammt frá Teheran á miðvikudag hafi ekki verið grandað með flugskeyti.  

„Það er eitt sem er öruggt, þessi flugvél varð ekki fyrir flugskeyti,“ sagði Abedzadeh á blaðamannafundi í Teheran í dag eftir að bæði bresk og kanadísk yfirvöld segja að leyniþjónustustofnanir ríkjanna telji að mistök hafi verið gerð í loftvarnakerfi Írana og eldflaug hafi grandað farþegaþotunni. 

„Upplýsingar í flugritunum eru  mikilvægar fyrir flugmálayfirvöld til að geta gefið út yfirlýsingu,“ segir Abedzadeh og bætti við að þeir væru óskemmdir og til rannsóknar.

Hann segir að ásakanir í garð Írana eigi ekki við rök að styðjast og ekki sé hægt að fullyrða neitt með fullvissu fyrr en rannsókn á flugritunum er lokið. 

Yfirlýsingar Breta og Kanadamanna komu fram í kjölfar birtingar myndskeiðs sem á að sýna að farþegaþotan hafi verið skotin niður. Myndskeiðið, sem New York Times segist hafa staðreynt, sýnir hraðskreiðan hlut skjótast upp í himininn áður en blossi myndast og skömmu síðar heyrist sprenging. 

„Við höfum séð nokkur myndskeið. Við staðfestum að flugvélin var logandi í 60 til 70 sekúndur,“ segir Abedzadeh. En að hún hafi verið hæfð af einhverju gengur ekki upp vísindalega séð.

Ali Abedzadeh segir að á sama tíma og úkraínska þotan var í átta þúsund feta hæð hafi nokkrar aðrar flugvélar, bæði innlendar og erlendar, flogið í svipaðri hæð á sömu slóðum og því gangi einfaldlega ekki upp að hún hafi verið hæfð með flugskeyti.

Upplýsingar um flug sýna að einhver flugumferð var um Mehrabad-flugvöllinn, sem er 35 km norðaustur af Imam Khomeini-alþjóðaflugvellinum þaðan sem Boeing-þota úkraínska flugfélagsins var að koma. 

Hassan Rezaeifar, yfirmaður flugslysanefndar í Íran, segir að hvergi í heiminum væri möguleiki að sannreyna svo skömmu eftir flugslys ástæðuna fyrir því. Ekkert hafi fundist sem bendi til þess að flugskeyti hafi grandað þotunni. Þvert á móti hafi gögn komið fram sem sýna að svo sé ekki. Vísar hann þar til þess að farþegaþotunni hafði verið snúið við og var að leið til baka á flugvöllinn þegar hún hrapaði. 

Írönsk yfirvöld hafa boðið erlendum flugslysanefndum, svo sem bandarískum og kanadískum, að taka þátt í rannsókninni ásamt Boeing, framleiðanda farþegaþotunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert