Síðustu augnablik 176 farþega

Í janúar var úkraínsk farþegaþota með 176 farþegum skotin niður af íranska hernum skömmu eftir flugtak í Teheran. Tvö flugskeyti hæfðu vélina sem dró úr trúverðugleika á skýringum hersins sem hélt fram að vélin hefði verið skotin niður fyrir mistök. Greining blaðamanna NYT sýnir skeytin lenda á vélinni en einnig þegar hún hrapaði til jarðar skammt frá þorpinu Khalaj Abad með þeim af­leiðing­um að all­ir 176 um borð létu lífið. 

Atvikið átti sér stað skömmu eftir að íranski hershöfðinginn Qa­sem So­leimani var ráðinn af dögum af Bandaríkjamönnum í drónaárás sem olli miklum titringi á svæðinu. Spennan í samskiptum þjóða í Mið-Austurlöndum nálgaðist svo suðumark eftir að vélinni var grandað, m.a. var Rob Macaire, sendiherra Breta í Teheran, handtekinn á minningarathöfn um þá sem fórust í atvikinu.

Í myndskeiðinu sem fylgir sést vélin á flugi í ljósum logum en einnig er þar að finna upptöku úr öryggismyndavél þar sem brak úr vélinni sést skella á jörðu. 

mbl.is mun á næstu dögum birta skýringar af þessu tagi sem New York Times hefur gert fyrir alla mánuði þessa viðburðaríka árs. Kórónuveiran er þar fyrirferðarmikil en önnur stór fréttamál á árinu eru einnig til skoðunar, þar má nefna dauða George Floyds í höndum lögreglunnar í Minneapolis og forsetakosningarnar í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert