Íranar nái að þróa kjarnorkusprengju innan árs

Stjórnmálaskýrendur telja mögulegt að virkjun svokallaðs deiluákvæðis af hálfu Evrópuríkjanna …
Stjórnmálaskýrendur telja mögulegt að virkjun svokallaðs deiluákvæðis af hálfu Evrópuríkjanna gæti leitt til endaloka kjarnorkusamningsins við Íran. AFP

Evrópuríki sem eiga aðild að kjarnorkusamningnum við Íran hafa ákveðið að virkja svokallað „deiluákvæði“ (e. Dispute mechanism), eftir að írönsk stjórnvöld hófu á ný að auka tilraunir sínar til framleiðslu kjarnavopna. Stjórnmálaskýrendur telja mögulegt að virkjun ákvæðisins gæti leitt til endaloka samningsins. 

Kjarn­orku­sam­komu­lagið var und­ir­ritað árið 2015 milli Írans, ann­ars veg­ar, og Banda­ríkj­anna, Frakk­lands, Þýska­lands, Bret­lands, Rúss­lands og Kína hins veg­ar. Sam­komu­lagið fól í sér að ír­önsk yf­ir­völd drógu veru­lega úr til­raun­um sín­um til fram­leiðslu kjarna­vopna, en þess í stað af­námu hin rík­in ýms­ar efna­hagsþving­an­ir sem höfðu verið í gildi.

Sam­komu­lagið hef­ur hangið á bláþræði frá því Banda­rík­in sögðu sig frá því árið 2018, en leiðtog­ar annarra samn­ingslanda hafa þó ít­rekað hvatt stjórn­völd í Íran til að halda sig við það.

Stjórnvöld í Íran hófu í sumar fram­leiðslu á auðguðu úrani um­fram það sem rík­inu er heim­ilt að fram­leiða, sam­kvæmt kjarn­orku­samn­ingn­um. Ákvörðun um að virkja deiluákvæðið er tekin „með sorg í hjarta,“ að því er segir í tilkynningu breskra, franskra og þýskra stjórnvalda. Telja ríkin að innan árs muni Íran búa yfir þeirri getu að þróa kjarnorkusprengju. 

Íranar hafa verið kallaðir að samningaborðinu að nýju en eftir árás Bandaríkjanna þar sem hershöfðinginn Qasem Soleimani var felldur tilkynntu írönsk stjórnvöld að þau ætluðu að virða samninginn að vettugi og auðga úran að vild. 

Í tilkynningu ríkjanna þriggja segir að ákveðið hafi verið að virkja ákvæðið í lok síðasta árs og því byggir ákvörðunin hvorki á nýlegri árás Írana á bandaríska herstöð í Írak né flugslysinu þar sem Íranar skutu niður úkraínska farþegaþotu fyrir slysni. 

Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, segir markmiðið skýrt: „Við viljum varðveita samninginn og komast að diplómatísku samkomulagi innan hans.“

Frétt BBC

Frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert