Lík ellefu Úkraínumanna, sem voru um borð í flugvélinni sem Íranar skutu niður fyrr í mánuðinum, eru komin heim. Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, og Oleksiy Honocharuk forsætisráðherra voru viðstaddir athöfnina á Boryspil-flugvelli í Kænugarði í morgun.
176 voru um borð í vél Ukraine International Airlines, sem hafði nýtekið á loft frá Teheran, höfuðborg Írans, á leið til Kænugarðs er hún var skotin niður. Hafa írönsk yfirvöld viðurkennt ábyrgð, en sagt að það hafi verið gert fyrir mistök.
Flugvélin fórst aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Íranar gerðu loftárásir á tvær bandarískar herstöðvar í Írak, en á myndbandi sem dagblaðið New York Times hefur birt má sjá að tvö flugskeyti hæfðu vélina með 23 sekúndna millibili. Létust allir um borð í vélinni, þar af 82 Íranar, 63 Kanadamenn og 10 Svíar.
Úkraínsk og írönsk stjórnvöld vinna saman að rannsókn flugslyssins og hafa Íranar gefið það út að Bandaríkin fái flugritana ekki afhenta.