Lík Úkraínumannanna komin heim

Brot úr flaki vélarinnar, sem skotin var niður 8. janúar. …
Brot úr flaki vélarinnar, sem skotin var niður 8. janúar. Allir 176, sem voru um borð, létust. AFP

Lík ellefu Úkraínumanna, sem voru um borð í flugvélinni sem Íranar skutu niður fyrr í mánuðinum, eru komin heim. Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, og Oleksiy Honocharuk forsætisráðherra voru viðstaddir athöfnina á Boryspil-flugvelli í Kænugarði í morgun.

176 voru um borð í vél Ukraine International Airlines, sem hafði nýtekið á loft frá Teheran, höfuðborg Írans, á leið til Kænugarðs er hún var skotin niður. Hafa írönsk yfirvöld viðurkennt ábyrgð, en sagt að það hafi verið gert fyrir mistök.

Flug­vél­in fórst aðeins nokkr­um klukku­stund­um eft­ir að Íran­ar gerðu loft­árás­ir á tvær banda­rísk­ar her­stöðvar í Írak, en á myndbandi sem dagblaðið New York Times hefur birt má sjá að tvö flugskeyti hæfðu vélina með 23 sekúndna millibili. Létust allir um borð í vélinni, þar af 82 Íranar, 63 Kanadamenn og 10 Svíar.

Úkraínsk og ír­önsk stjórn­völd vinna sam­an að rann­sókn flug­slyss­ins og hafa Íran­ar gefið það út að Banda­rík­in fái flug­rit­ana ekki af­henta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert