Kínversk stjórnvöld hafa lagt fram frumvarp um ný öryggislög í Hong Kong sem kveða á um bann við uppreisnaráróðri, sjálfstæði sérstjórnarhéraðsins og landráði.
Þess má vænta að frumvarpinu verði mótmælt bæði í Hong Kong og á alþjóðavettvangi, en borgin var undirlögð hatrömmum mótmælum meirihluta síðasta árs vegna frumvarps sem leggja átti fyrir þing sjálfstjórnarhéraðsins og hefði heimilað framsal fanga og eftirlýstra glæpamanna til Kína.
Alþýðuþing Kína kemur saman á morgun, föstudag, og verður nýtt frumvarp um öryggislög þar til umræðu, en samkvæmt stjórnarskrá Hong Kong ber þeim að innleiða öryggislög frá Kína í grunnlög sín.
Grunnlög Hong Kong voru innleidd þegar Bretar afhentu Kínverjum yfirráð yfir Hong Kong, en þau tryggja íbúum Hong Kong ákveðin grunnréttindi sem ekki eru til staðar á meginlandi Kína.
Kínversk stjórnvöld hafa ekki áður beitt völdum sínum til þess að innleiða öryggislög í grunnlög Hong Kong, en talið er að þau óttist aukin yfirráð stjórnmálaflokka í Hong Kong sem styðja aukið lýðræði sjálfstjórnarhéraðsins og að lögin gætu komið í veg fyrir innleiðingu laga frá yfirvöldum í Peking.