Ný umdeild þjóðaröryggislög í Hong Kong voru samþykkt án umræðu á kínverska þinginu í dag.
Lögin kveða á um bann við uppreisnaráróðri, landráði og sjálfstæðisumleitunum sjálfstjórnarhéraðsins. Lýðræðissinnar í Hong Kong hafa boðað til mótmæla vegna laganna, jafnt í Hong Kong sem og á alþjóðavettvangi.
Hong Kong var undirlögð hatrömmum mótmælum meirihluta síðasta árs vegna frumvarps sem leggja átti fyrir þing sjálfstjórnarhéraðsins og hefði heimilað framsal fanga og eftirlýstra glæpamanna til Kína. Tilgangur nýju laganna er m.a. að koma í veg fyrir mótmæli af slíkri stærðargráðu.
Stjórnvöld í Hong Kong segjast ætla að vinna með kínverskum yfirvöldum við innleiðingu laganna, með því skilyrði að þau hafi ekki áhrif á frelsi sjálfstjórnarhéraðsins.
Forsætisráðherra Kína, Li Keqiang, sagði við upphaf þingsins í morgun að ætlun stjórnvalda sé að byggja upp og bæta dómskerfi Hong Kong í þeim tilgangi að efla þjóðaröryggi.