Í miðjum heimsfaraldri flykkjast þúsundir manna út á götur Hong Kong til þess að mótmæla. Spjótin beinast að nýjum lögum sem samþykkt voru í kínverska þinginu á föstudaginn, sem gefa kínversku stjórninni víðtækari heimild til þess að bæla niður uppreisnaráróður og sjálfstæðistilhneigingar sjálfsstjórnarhéraðsins Hong Kong.
Frumvarpið er nýr kafli í þeirri vegferð kínverskra stjórnvalda að ganga á þau sérréttindi sem Hong Kong hefur notið frá því að það rann frá Bretum og undir Alþýðulýðveldið Kína árið 1997. Síðan þá hefur það haft mikið sjálfræði um lagasetningu, gjaldmiðil og öryggisþjónustu en varnar- og alþjóðamál heyrt undir stjórnina í Pekíng.
Nýmælin í lögunum sem kínverska stjórnin samþykkti á föstudaginn, en á eftir að innleiða, eru þau að henni sjálfri verði gert heimilt að halda úti öryggisþjónustu í Hong Kong, „með það fyrir augum að tryggja þjóðaröryggi“. Der Spiegel segir að þetta geri Kínverjum hægara um vik að stunda það þeir hafa áður gerst uppvísir að, að ofsækja þá Hong Kong-búa sem eru pólitískt óhliðhollir stjórninni.
Í fyrra brutust út umfangsmikil og langvarandi mótmæli í Hong Kong vegna fyrirhugaðra lagabreytinga um að unnt yrði að framselja afbrotamenn frá Hong Kong til Kína. Þau áform voru brotin á bak aftur af andspyrnuhreyfingunni sem myndaðist þá og þó að yfirvofandi réttarbreyting nú sé ólík þeirri sem þá stóð til, er gripið til hennar í nákvæmlega sama tilgangi og í síðasta skipti, segir Spiegel.
Kórónuveiran setur mark sitt á mótmælin nú og óvíst er um hvort þau nái sömu hæðum og í fyrra, þó að vissulega sýni fréttaljósmyndir þegar nokkurn fjölda fólks. Ljóst er að andstaðan við ráðstafanir af þessum toga er mikil eftir sem áður, en enn er óráðið hver birtingarmynd hennar verður við nýjar aðstæður.
Vestræn ríki og Evrópusambandið lýsa þá yfir áhyggjum af framvindunni. Þar eru flestir á einu máli um að mótmæla þessum áformum kínverskra stjórnvalda, enda varði miklu að áfram verði unnið eftir grunnreglunni um „eitt land en tvö kerfi“.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna: „Bandaríkin hvetja Pekíng mjög til þess að endurskoða þessa hörmulegu tillögu sína, standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar og virða það ríka sjálfræði, þær sterku lýðræðislegar stofnanir og þau ríku réttindi borgara í Hong Kong, sem skipta sköpum fyrir sérstöðu héraðsins samkvæmt bandarískum skilningi.“
Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sagði að miklu skipti fyrir Evrópusambandið að sjálfsstjórn héraðsins yrði varin í lengstu lög.