Ólga vegna öryggislaganna

Stuðningsmenn Kína í Hong Kong fagna lögunum. Lýðræðissinnar segjast þó …
Stuðningsmenn Kína í Hong Kong fagna lögunum. Lýðræðissinnar segjast þó margir óttast um öryggi sitt. AFP

Bretland, Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið hafa lýst yfir áhyggjum sínum eftir að kínversk stjórnvöld samþykktu umdeild öryggislög sem talin eru ógna réttarfarslegu sjálfstæði Hong Kong. 

Lögin kveða á um bann við uppreisnaráróðri, landráðum og sjálfstæðisumleitunum sjálfstjórnarhéraðsins, auk þess sem málfrelsi og réttur til að mótmæla eru verulega skert með lögunum. 

Xi Jinping, leiðtogi Kína, skrifaði undir lögin, sem verða innleidd í sérstaka stjórnarskrá Hong Kong. Carrie Lam, leiðtogi Hong Kong, styðjur löggjöfina og segir þau fylla upp í opið gap í varnarmálum sjálfstjórnarhéraðsins. 

Heimildir BBC herma að yfirvöld í Peking muni kynna lögin nánar síðar í dag. Drög að lögunum hafa ekki verið gerð opinber og jafnvel Lam hefur sagst ófær um að tjá sig um þau. Búist er við því að lögin taki gildi á morgun. 

Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, hefur hvatt stjórnvöld í Kína til að „stíga til baka af brúnni“ og virða mannréttindi íbúa Hong Kong. „Velgengni Hong Kong, frumkvöðlaandinn, útgeislunin, efnahagsleg velgengni, hefur verið byggð upp á sjálfstæði þess, í „eitt land, tvö kerfi“ fyrirkomulaginu. Það er klárlega ógn,“ sagði Raab. 

Charles Michel, forseti Evrópuráðsins, segir lögin ógna sjálfræði Hong Kong verulega og munu hafa skaðleg áhrif á réttarkerfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert