Karlmaður sem flaggaði fána til stuðnings sjálfstæði Hong Kong varð fyrstur til að verða handtekinn á grundvelli nýrra öryggislaga kínverskra stjórnvalda sem tekið hafa gildi í sjálfsstjórnarborginni.
Samkvæmt frétt BBC hefur lögregla þurft að beita piparúða til að leysa upp þvögur mótmælenda sem saman voru komnir á þessum degi sem markar 23 ár síðan breskum yfirráðum yfir Hong Kong lauk.
Öryggislögin kveða m.a. á um bann við uppreisnaráróðri, landráðum og sjálfstæðisumleitunum sjálfstjórnarhéraðsins, og getur brot gegn þeim varðað við lífstíðarfangelsi. Þá er málfrelsi og réttur til mótmæla íbúa Hong Kong verulega skertur með lögunum, en gagnrýnendur segja þau ógna réttarfarslegu sjálfstæði Hong Kong.
Bretar afhentu Kína yfirráð yfir Hong Kong árið 1997 með þeim skilyrðum að kínversk stjórnvöld tryggðu þar sérstakt frelsi hið minnsta næstu 50 ár.
„Kína lofaði íbúum Hong Kong 50 ára frelsi en gaf þeim aðeins 23,“ segir Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og varar við nýjum refsiaðgerðum gegn kínverskum stjórnvöldum.
#BREAKING: A man was arrested for holding a #HKIndependence flag in #CausewayBay, Hong Kong, violating the #NationalSecurityLaw. This is the first arrest made since the law has come into force. pic.twitter.com/C0ezm3SGDm
— Hong Kong Police Force (@hkpoliceforce) July 1, 2020