Bretar fella framsalssamning við Hong Kong úr gildi

Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, greindi frá ákvörðuninni á þingi fyrr …
Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, greindi frá ákvörðuninni á þingi fyrr í dag. AFP

Framsalssamningur milli Bretlands og Hong Kong hefur verið felldur úr gildi af bresku ríkisstjórninni vegna nýrra öryggislaga sem kínversk yfirvöld lögfestu nýverið. Ákvörðunin tekur gildi „þegar í stað og er ótímabundin“. Áströlsk stjórnvöld gerðu slíkt hið sama fyrr í þessum mánuði.

Þetta staðfesti Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, á breska þinginu fyrr í dag. Þá gaf hann til kynna að bann við viðskiptum með „mögulega banvæn vopn“ yrði framlengt.

Togstreitan milli ríkjanna eykst því enn frekar, en í gær sökuðu Bretar kínversk stjórnvöld um gróf mannréttindabrot gegn Úígúrum og í síðustu viku tóku bresk stjórnvöld þá ákvörðun að útiloka kínverska fjarskiptafyrirtækið Huawei frá uppbyggingu 5G-netkerfis í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert