Bandaríkin beita Lam refsiaðgerðum

AFP

Fjár­málaráðuneyti Banda­ríkj­anna ætl­ar að beita Carrie Lam, rík­is­stjóra Hong Kong, og tíu aðra hátt setta emb­ætt­is­menn sjálfs­stjórn­ar­héraðsins og meg­in­lands Kína refsiaðgerðum. Viður­lög­un­um verður beitt gegn þeim sem grafa und­an sjálf­stjórn Hong Kong, að sögn Steven Mnuchin, fjár­málaráðherra Banda­ríkj­anna.

„Banda­rík­in standa með íbú­um Hong Kong,“ bætti Mnuchin við. BBC grein­ir frá.

Ákvörðunin var tek­in nokkr­um vik­um eft­ir að Kína setti um­deild þjóðarör­ygg­is­lög á í Hong Kong sem and­stæðing­ar lag­anna segja ógna frelsi sjálf­stjórn­ar­héraðsins. 

Spenna á milli Banda­ríkj­anna og Kína held­ur áfram að aukast en í dag ákvað rík­is­stjórn Banda­ríkj­anna að banna viðskipti við kín­verska eig­end­ur smá­for­rit­anna WeChat og TikT­ok. 

Lög­reglu­stjór­inn og stjórn­mála­leiðtog­ar beitt­ir refsiaðgerðum

Á meðal þeirra sem beitt verða refsiaðgerðum nú eru lög­reglu­stjóri Hong Kong og nokkr­ir stjórn­mála­leiðtog­ar. 

Rík­is­stjórn Banda­ríkj­anna sakaði Lam bein­lín­is um að inn­leiða stefnu stjórn­valda í Pek­ing um „að bæla niður frelsi og lýðræðis­lega ferla.“

„Árið 2019 þrýsti Lam á upp­færslu á fyr­ir­komu­lagi á framssals­skipu­lagi Hong Kong svo mögu­legt væri að leyfa framsal til meg­in­lands­ins. Það varð til þess að fjöldi fólks mót­mælti,“ seg­ir í yf­ir­lýs­ingu frá fjár­málaráðuneyti Banda­ríkj­anna um málið. 

Lam hlær að refsiaðgerðum

Lagt verður hald á all­ar banda­rísk­ar eign­ir þeirra ell­efu sem beitt verða refsiaðgerðum og verða reikn­ing­ar þeirra fryst­ir. 

Lam gerði grín að því þegar til­lög­ur að refsiaðgerðunum voru sett­ar fram í síðasta mánuði.

„Ég á eng­ar eign­ir í Banda­ríkj­un­um né þrái að flytja til Banda­ríkj­anna,“ sagði Lam þá og bætti því við að hún myndi bara hlæja ef banda­rísk stjórn­völd myndu beita hana refsiaðgerðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka