Stjórnarandstæðingur í Hong Kong var í morgun handtekinn af hópi lögreglu fyrir að „muldra uppreisnaráróður“ skömmu fyrir mótmæli gegn nýjum öryggislögum á sjálfstjórnarsvæðinu.
Tam Tak-chi er varaforseti flokks framsækinna lýðræðissinna í Hong Kong. Handtaka Tak-chi kemur í kjölfar handtaka á fjölmörgum áberandi lýðræðissinnum, meðal annars þingmönnum.
Til stóð að óleyfileg mótmæli færu fram í dag gegn frestun kosninga í Hong Kong og nýjum öryggislögum sem tóku gildi fyrr í sumar. Tak-chi var handtekinn á heimili sínu af þjóðaröryggissveitum lögreglunnar, en að sögn lögreglu var hann ekki handtekinn á grundvelli nýju öryggislaganna.
Lögregla segir að Tam hafi verið handtekinn fyrir orðnotkun við ræðuhöld í sumar sem „hafði í för með sér hatur og fyrirlitningu gagnvart stjórnvöldum og skapaði ólgu og óánægju meðal íbúa í Hong Kong“.