Ítalski skurðlæknirinn Paolo Macchiarini hefur verið ákærður af sænska ríkinu að nýju, í þetta sinn fyrir alvarlega líkamsárás. Saksóknarar segja að skurðaðgerðir hans hafi verið gerðar í tilraunaskyni og hafi verið ólöglegar.
Macchiarini varð heimsfrægur eftir að hann græddi plastbarka í Erítreumanninn Andemariam Teklesenbet Beyene, sjúkling Tómasar Guðbjartssonar skurðlæknis, árið 2011 þegar hann starfaði á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Hann græddi plastbarka í tvo sjúklinga til viðbótar í Svíþjóð en allir þrír sjúklingarnir eru nú látnir.
Sænska ríkið höfðaði upphaflega mál gegn Macchiarini fyrir að hafa valdið dauða sjúklinganna, en ákærurnar voru að endingu felldar niður vegna þess að ekki tókst að sanna að plastbarkarnir hefðu valdið dauða sjúklinganna.
Macchiarini var svo dæmdur í 16 mánaða fangelsi í heimalandi sínu, Ítalíu, fyrir skjalafals og að misnota aðstöðu sína þegar hann starfaði á spítala í Flórens.
Rannsóknarnefnd, sem skipuð var af forstjóra Landspítalans og rektor Háskóla Íslands, komst að þeirri niðurstöðu árið 2017 að Macchiarini hefði blekkt Tómas Guðbjartsson í aðdraganda aðgerðarinnar á Beyene.